Sjálfstæðismenn sóuðu klukkustund í alvörulaust frumvarp um að veikja stéttarfélög

Á þriðjudag tók forseti Alþingis undir það í ræðu þingmanns stjórnarandstöðunnar að stjórnarflokkarnir skili um þessar mundir frumvörpum sínum vandræðalega seint til þingsins. Þetta leiðir til þess að umræða um þau verður í skötulíki á meðan þingmenn hafa ofan af fyrir sér og öðrum með því að ræða einar og aðrar hugdettur sínar sem eru dæmdar til að daga uppi sem reimleikar í nefndum, leiða hvorki lönd né strönd, því þannig er víst hefð að fari fyrir svokölluðum þingmannamálum, það er öllum þeim málum sem eru lögð fyrir þingið af öðrum en ráðherrum.

Ein þess háttar umræða fór fram á þinginu á miðvikudag, þegar þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, lagði í annað sinn fram frumvarp um það sem hann kallar „félagafrelsi á vinnumarkaði“ og snýst um að veikja stöðu verkalýðsfélaga. Það er ljóst á þessu þingi eins og því síðasta að frumvarpið nær ekki fram að ganga, en þingmaðurinn gat þó varið nokkrum korterum af tíma þingsins og þeirra sem eru dæmdir til að fylgjast með störfum þess, í vangaveltur sínar um kosti þess að draga tennurnar úr stéttarfélögunum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, svaraði því til að sér þætti líka gott að hafa ríkisstjórnarfrelsi. „Segjum sem svo að ég hefði kosið Vinstri græn en þau fara síðan í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og ég sé bara ósammála því, og þá vil ég ekkert þessa ríkisstjórn og ætla bara að segja mig úr því oki sem sú ríkisstjórn setur á mig. Ég vilji færa atkvæði mitt eitthvert annað.“ Hann sagði að sér þætti eitthvað hliðstætt með þessu tvennu. „Þó að kjósandi sé ekki sammála forystunni, þá hefur hann samt ekkert úrræði annað en að hlíta þeim lögum sem ríkisstjórnin kemur í gegn, þeirri skattheimtu og þess háttar sem er sett hér.“ Björn Leví sagðist skilja hvaðan Óli Björn væri að koma með tillögu sína, en hætt væri við því að ef „fólk geti staðið utan þessa sameiginlega apparats, sem er að deila og semja um kaup og kjör“ hraki réttindum. Það hafi til dæmis gerst í Bandaríkjunum sagði hann. „Það er ítrekað skotist fram hjá lögum um alls konar skilyrði varðandi ráðningar og þess háttar, sem getur leitt til þess að þrátt fyrir að það sé ólöglegt, þá ráði vinnuveitandi einungis einhverja sem eru í einu verkalýðsfélagi frekar en öðru.“

Og þó að bæði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar, og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, hafi síðan tekið til máls og varið þann lagaramma um stéttarfélögin sem nú er til staðar af heldur meiri festu en Björn Leví, þá var umræðan öll mörkuð andrúmslofti fullkomins fánýtis. Það skein í gegn að þeir örfáu þingmenn sem yfirleitt nenntu að leggja henni eitthvað til vissu að það hefði hérumbil ekkert upp á sig, ekkert afl stæði að baki frumvarpinu, ekkert afl þyrfti til að standa gegn því, engin orð fengju neinu áorkað í þessu samhengi. Andvörpin urðu þyngst þegar fimmti þingmaðurinn steig inn í umræðuna, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Teitur Björn Einarsson, og nýtti frumvarpið til léttra æfinga í ræðustólnum.

Engin ræðanna var nógu fyndin, þó ekki væri annað, til að þingmenn hefðu unnið fyrir kaupi sínu sem skemmtikraftar í þessari umræðu. Það ánægjulegasta við umræðuna fyrir alla sem urðu fyrir henni var að henni lauk, frumvarpið gekk til atkvæðis og þaðan sinn sinn veg til velferðarnefndar þar sem það mun hafa þá ofan af fyrir fólki þar til Óli Björn ber það aftur fram á næsta þingi.

Vert er þó að nefna að meðflutningsmenn frumvarpsins voru allir þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ekki eru ráðherrar. Að því leyti verður ekki betur séð en að það sé rétt sem Jóhann Páll sagði í fyrstu ræðu sinni þessa andlausu klukkustund á þingi, að í frumvarpinu „birtist algjörlega svart á hvítu hvar Sjálfstæðisflokkur nútímans stendur gagnvart verkalýðshreyfingu nútímans á Íslandi.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí