Undanfarin misseri þá virðast allar ákvarðanir sem Vinstri grænir taka gera nákvæmlega engan ánægðan. Það hefur líklega aldrei verið eins augljóst og í dag. Í morgun þegar greint var frá því að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hygðist veita Hvali veiðileyfi til veiða á langreyðum, þá vakti það hörð viðbrögð meðal margra, ekki síst meðal umhverfissinna og fyrrverandi kjósenda flokksins, svo dæmi séu tekin.
Grófum dráttum má draga saman það sem þessi hópur sagði um þetta á samfélagsmiðlum í annað hvort af tvennu, að þetta væru „enn ein svikin“ sögðu sumir meðan gárungar höfðu nú alræmt slagorð Vg af háði og spotti, „það skiptir máli hver stjórnar“. Sumum var þó ekki hlátur í hug, svo sem rithöfundurinn Sjón, sem skrifar á Twitter:
„Matvælaráðherra Bjarkey Olsen skríður fyrir Sjálfstæðisflokknum og leyfir hinar viðbjóðslegu hvalveiðar að nýju. Hún og flokkur hennar „Vinstri græn“ eru hvorki vinstri né græn. Þau eru auðvaldsmottur og umhverfissóðar. Megi þau þurrkast út í næstu kosningum.“
En ef Bjarkey og Vg voru að skríða fyrir útgerðinni með þessu, þá má segja að þau skilaboð hafi komið frá kvótakóngum Íslands upp úr hádegi að þau þurfi að hneygja sig enn dýpra. Að útgerðin vilji meira en litla fingur, helst alla hendina. Í fréttatilkynningu frá SFS var talað um aðför gegn „sjálfbæri nýtingu sjávarauðlindarinnar“, því leyfið sé eingis bundið við eitt ár.
Niðurstaða dagsins virðist því vera að enn eitt dagur þar sem enginn er ánægður með flokkinn. Líkt og Hrafn Jónsson orðar það á Twitter:
Ahh fyrirtak, listin að taka ákvarðanir sem gera nákvæmlega engan ánægðan pic.twitter.com/b9IUFusux3
— Hrafn Jónsson (@hrafnjonsson) June 11, 2024