Eins og við var að búast er grenjað vítt og breytt í Mogganum. Flestir dálkar eru brúkaðir fyrir grátinn ógurlega. Staksteinar dagsins eru þar á meðal.
„Ráðherrar gefa ekkert fyrir ábendingar þeirra sem starfa við sjávarútveg eða stýra sjávarbyggðum um að tvöföldun veiðigjalda muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir greinina og byggðirnar.
Ísfélagið er eitt þriggja skráðra sjávarútvegsfyrirtækja í Kauphöll Íslands og forstjóri þess, Stefán Friðriksson, sagði í afkomutilkynningu í gær að ljóst væri að „afkoma greinarinnar megi ekki við frekari kostnaðarhækkunum þegar tekið er tillit til nauðsynlegra fjárfestinga og eðlilegrar afkomu greinarinnar.
Engar tilraunir hafa verið gerðar til að skoða áhrif þessara skattahækkana á atvinnugreinina og samkeppnishæfni hennar. Hærri skattar á fyrirtæki minnka möguleika þeirra á að fjárfesta í betri rekstri og draga úr getu fyrirtækja til að gera betur. Þarna eru því áform um að slátra mjólkurkúnni.“
Þar segir einnig: „Síldarvinnslan er annað skráð félag í Kauphöllinni og framkvæmdastjóri þess, Gunnþór Ingvason, sagði í Dagmálum Morgunblaðsins að þessi mikla skattahækkun þýddi að það yrði að hagræða. Hann sagðist til dæmis sjá fyrir sér að vinnslum mundi fækka.
Augljóst er að færri störf verða eftir í sjávarútvegi með slíkri skattahækkun og sjávarbyggðirnar munu gefa eftir. Telja stjórnvöld það eftirsóknarverða þróun?“
Það var og. Skrif ámóta þessu er að finna víðar í Mogganum. Víst er að greinunum mun fjölga. Og það hratt og örugglega.