Velvakandi Moggans er ekki velvakandi. Sunnlendingur skrifar stutta grein að loknum landsfundi. Honum er annt um flokkinn sinn:
„Þá er landsfundi Sjálfstæðisflokksins lokið með miklum bravúr og ekkert nema vaxtartækifæri fram undan.
Allir frambjóðendur fengu góða kosningu og eru ekki að fara neitt heldur verða áfram í framlínunni.
Það verður auðvitað einn í bilstjórasætinu en það þarf fjögur hjól undir vagninn svo að vel fari.
Í fyrsta lagi þarf trausta og samhenta forystu. Í öðru lagi einhuga flokksheild sem fylgir sínum grunngildum og stefnuskrá og stendur vel saman. Í þriðja lagi má nefna hinn almenna flokksmann sem finnur sig í stefnu og gjörðum flokksins og er sá akur sem yrkja þarf.
I fjórða lagi er brýnt að Morgunblaðið verði áfram málsvari flokksins gegnum þykkt og þunnt, þótt sjálfsagt sé að gagnrýna þegar við á, enda vinur sá er til vamms segir.
Með þessu eru fjögur hjól undir sjálfstæðisvagninum og bílstjórasætið vel skipað. Góða ferð.“