„Ég vildi fá að koma hérna upp og taka undir með háttvirtum þingmanni Sigurði Inga Jóhannssyni. Við höfum bæði fengið þau ótrúlegu tækifæri sem felast í því að fá að sitja á ráðherrabekknum og í framkvæmdarvaldinu og ég man bara eftir því þegar forseti húðskammaði okkur fyrir að kíkja aðeins út úr húsi ef verkefnin voru þannig þegar 1. umræða var í gangi,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á þingi, þegar hún kvartaði undan því hversu margir ráðherrar og þingmenn meirihlutans hunsuðu laugardagsfundinn.
„Þetta er það samtal sem þingið hefur við hæstvirtan ráðherra um þau frumvörp sem koma hingað. Því er algjört lágmark að hæstvirtir ráðherrar taki þátt í þeirri umræðu, séu hér til viðtals við háttvirtir þingmenn um málið, svari spurningum, vangaveltum og séu þátttakendur í því að láta ekki eins og Alþingi og löggjafarvaldið sé einhver stimpilpúði. Mér finnst það algjört lágmark að framkvæmdarvaldið hér og hæstvirtir ráðherrar í þessari ríkisstjórn fari aðeins að endurskoða afstöðu sína gagnvart Alþingi og framkomu sína með því að sitja hér undir umræðum og taka þátt og að hæstvirtur forseti taki þátt í því með öllu þinginu.“