„Ég þakka háttvirturm þingmanni fyrir fyrirspurnina og ég get glatt hana með því að þó að ég sé svolítið mikið sjónlaus er ég með alveg frábæra heyrn þannig að ég heyrði nákvæmlega það sem háttvirtur þingmaður sagði, þó svo að ég muni ekki alveg hvenær ég nefndi 15 fjölskyldurnar. En það breytir ekki þeirri staðreynd að hér erum við eingöngu að leiðrétta veiðigjöld á útgerðina sem í raun og veru — ég ætla að heyra aðeins betur en bara fyrirspurn háttvirts þingmanns og bæta aðeins í brúsann því það hefur verið voða mikið talað um að þetta sé skattur: Veiðigjöldin eru frádráttarbær frá skatti, bara svo það sé sagt. Þess vegna bera þau einkenni gjalda en ekki skatta,“ sagði Inga Sæland þegar hún svaraði fyrirspurn Nönnu Margrétar Gunnlaugsddóttur Miðflokki.
Nanna Margrét hafði spurt Ingu hvort hún standi enn þessa fullyrðingu þrátt fyrir til að mynda umsögn 26 sveitarfélaga sem leggjast gegn því að veiðigjaldafrumvarpið verði samþykkt óbreytt. Ég vona að þrátt fyrir símnotkun hæstvirts ráðherra hafi hún heyrt spurningarnar.“
Inga svaraði: „Fyrir utan það erum við eingöngu að leiðrétta þær rangfærslur sem hafa verið viðhafðar hér við það að fá eðlilega rentu af auðlindinni. Við erum eingöngu að leiðrétta að það hafi verið greitt of lítið. Við erum ekki að hækka eitt eða neitt, það eru sömu prósentur sem gilda, eins og háttvirtur þingmaður veit. En ég er algerlega sammála því að það er þjóðin sem á auðlindina. Það er eðlilegasti hlutur í heimi og það ættum við öll að vera sammála um, eins og meiri hluti þjóðarinnar, að eðlilega rentu þurfum við að fá þegar er verið að veita aðgang að einhverri þeirri dýrmætustu auðlind sem við eigum. Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið hér til að ræða um veiðigjaldið, sem hefur nú verið slegið Íslandsmet í rökstuðningi við, þá er skoðun mín nákvæmlega skýr. Ég er í ríkisstjórn sem af hug og hjarta tekur utan um samfélagið og um leið og við berum virðingu fyrir sjávarútveginum okkar og vitum hversu mikilvæg stoð hann er í okkar hagkerfi og algerlega ómetanlegur, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að við eigum að fá eðlileg gjöld fyrir afnot af okkar eigin auðlind.“