„Ég vil einnig nefna það að maður upplifir vinnubrögðin í háttvirtri atvinnuveganefnd á þann veg að ekki sé hægt að líkja því við annað en algjört ofbeldi og það þegar svona grundvallarupplýsingar eru að koma fram nánast á síðustu klukkutímunum eins og eru að koma frá Skattinum, sem varða grundvallaratriði í þessu máli, og okkur er neitað um að fá þá á fund nefndarinnar,“ sagði Jón Gunnarsson Sjálfstæðisflokki á Alþingi rétt í þessu.
„Það er síðan hægt að nefna fjölda umsagnaraðila sem ekki hafa fengið tækifæri til að koma fyrir nefndina. Ég vil til að mynda nefna Byggðastofnun, þar sem eru sérfræðingar á þessu sviði, þegar kemur að byggðamálum í landinu — hafnað ítrekað. Fjármálafyrirtækin sem öll eru byrjuð að reikna sig inn í áhrifin af þessum veiðigjöldum á skuldastöðu fyrirtækja í mismunandi stærðum — hafnað. Svona getum við talið upp listann endalaust, virðulegur forseti, og ekki er hægt að líkja þessu við annað en algjört ofbeldi í vinnubrögðum. Fyrir utan það náttúrlega hversu hróplega óvönduð vinnubrögð er um að ræða í þessu mikilvæga máli,“ sagði Jón.