Píratar viðurkenna að grasrótin sé horfin – Bolabrögð að segja frá því: „Mikið af fólki er farið“               

Nú í hádeginu skrifaði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tvær færslur á Facebook um grasrót Pírata. Í annarri segir hann ekkert vandamál vera með grasrótina og ef það er ekki allt með felldu þá á það sér eðlilegar skýringar. Í hinni virðist hann nánast skamma þessa sömu grasrót fyrir að hafa ekki fundað nógu mikið. „Þú getur haft áhrif. Þú þarft ekki að fá leyfi frá einum né neinum,“ skrifar Björn. Í vikunni greindi Samstöðin frá því að grasrót Pírata væri nánast horfin. Það er ljóst að sú frétt vakti ekki hrifningu meðal helstu toppa flokksins. Björn gengur svo langt að segja fréttina bolabrögð.

Í þeirri frétt var greint frá því að innri kosningavefur Pírata hafi svo gott sem legið niðri í tvö ár. Það eina sem var til umræðu var að loka á Pírataspjallið. Þeir einu sem tjáðu sig voru kjörnir fulltrúar, eða starfsmenn flokksins. Þetta kosningakerfi átti að vera eitt af því sem aðgreindi flokkinn frá öðrum flokkum, hornsteinn flokksins sem sýndi að Píratar stæðu fyrir beinu lýðræði. Það er því kaldhæðnislegt að eina sem hefur verið þar til umræðu undanfarin ár sé hvernig þeir geti losað sig við hinn hornsteininn, Pírataspjallið á Facebook, umræðuvettvang flokksins meðal almennings.

Vísir fjallaði um málið í gærkvöldi og ræddi við nokkra kjörna fulltrúa Pírata. Það segir sína sögu að allir gangast í raun við því að grasrótin sé horfin, þó að þeir segi hana ekki dauða. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata segir til dæmis að það sé alveg rétt að félagsstarf   Pírata hafi legið niðri, enda hafi flokkurinn lokað félagsheimilinu í Tortúga. Ástæðan: „Tortúga hafði ekki nýst sem skyldi“. Hún heldur að grasrótin muni lifna til lífs síðar meir, þegar hún hefur jafnað sig af COVID. „Það hefur verið viss áskorun að koma félagastarfinu aftur upp eftir Covid,“ segir Þórhildur. Tvö ár eru síðan aðgerðum ríkisins vegna COVID lauk að mestu.

Vísir ræddi einnig við Alexöndru Bríem, borgarfulltrúa Pírata, sem var illa við frétt Samstöðvarinnar, þó að hún væri sönn. „En það er samt alveg rétt að það hefur verið erfitt, það er Covid, þar á undan átök og svo kosningasíþreyta. Mikið af fólki er farið, eða lagst í dvala, en það er alveg eitthvað af nýju fólki að koma líka,“ sagði Alexandra.

Líkt og fyrr segir þá skrifar Björn Leví nokkuð langan pistil um málið á Facebook í dag. Þar fullyrðir hann nánast að flokkurinn þurfi enga grasrót, fylgið sé stöðugt og það sé búið að ákveða allt. „Því sem munar nú og áður er frekar að Píratar eru komnir með yfirgripsmikla stefnu í flestum málaflokkum. Það er ekki sami drifkraftur bak við stefnumótunarstarfið núna og áður, þegar við vorum með færri samþykktar stefnur. Það þarf þess einfaldlega ekki eins mikið,“ segir Björn.

Hann skrifar svo aðra færslu en skilaboðin í henni mætti taka saman svo í stuttu máli: „Grasrótin getur bara drullast til að skipuleggja sig sjálf“. Hér fyrir neðan má lesa þá færslu í heild sinni.

„Leiðbeiningar um hvernig grasrótarstarf Pírata virkar.

1. Hver sem er getur beðið um félagsfund, hvenær sem er. Annað hvort er hægt að biðja framkvæmdastjórn / framkvæmdastjóra um að skipuleggja fundinn, sem gerist þá þegar húsnæði er laust eða önnur skipulagsleg atriði púslast saman … eða það er bara hægt að redda fundarstað sjálf/r/ur. Þá er beðið um að tilkynna félagsfund sem þarf að gerast með viku fyrirvara.

2. Á félagsfund geta allir mætt. Allir. Ekki bara skráðir Píratar. Á félagsfundi eru allir með tillögurétt. Á félagsfundi eru allir með atkvæðarétt. „Já, allir.“ Líka Bjarni Benediktsson ef hann myndi mæta.

3. Tillögur sem félagsfundur samþykkir að bera skuli undir alla Pírata, með atkvæðum 5% fundarmanna (lágmark þrír fundarmenn), eru settar í kosningakerfi Pírata þar sem allir skráðir í Pírata eru með kosningarétt.

Þú getur haft áhrif. Þú þarft ekki að fá leyfi frá einum né neinum. Atkvæðin ráða.

Er einhver annar flokkur með svona opið ferli fyrir hvern sem er að hafa áhrif á stefnu flokks? „Nei.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí