Ríkisstjórnin hyggst styrkja kaupendur rafbíla um allt að 900.000 á hvern bíl

Frá og með upphafi næsta árs munu einstaklingar og fyrirtæki geta sótt um styrk frá stjórnvöldum vegna kaupa á rafbílum, gangi áform stjórnvalda eftir. Þetta kom fram í frétt Morgunblaðsins á þriðjudag.

Þar segir að styrkurinn muni koma í stað þeirra skattaívilnana sem kaupendur slíkra bíla hafa notið til þessa. Blaðið segir að styrkurinn verði veittur úr Orkusjóði og muni nema allt að 900 þúsund krónum fyrir hvern bíl „í fjölskyldubílaflokki.“

Styrkja einkabíla umfram strætó

Í umfjöllun blaðsins er rætt við Ragnar K. Ásmundsson, starfsmann Orkustofnunar, sem fer með málefni Orkusjóðs. Ragnar segir unnið að innleiðingu styrkjakerfisins, og verið sé að villuprófa frumgerð þess.

Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir því að gert sé ráð fyrir að verja 30 milljörðum króna til þessara styrkja á fjögurra ára tímabilinu frá 2024 til 2027, eða 7,5 milljörðum á ári. Kaupverð bíls megi að hámarki vera 10 milljónir króna.

Samkvæmt úttekt ASÍ sem birtist árið 2022 vörðu stjórnvöld 9 milljörðum króna, gegnum skattaívilnanir, til að styrkja kaupendur rafbíla á árinu 2021. Í úttektinni kom einnig fram að á sama tíma var aðeins einum milljarði varið til að efla almenningssamgöngur. Í umfjöllun um hið nýja fyrirkomulag minnir Viðskiptablaðið á að stjórnvöld ákváðu fyrr á þessu ári að styrkja bílaleigur um einn milljarð króna til kaupa á rafbílum, þrátt fyrir 5,5 milljarða hagnað þeirra á liðnu ári.

Furðu óhagkvæmt úrræði

Fyrr á þessu ári kom fram í skýrslu OECD um stöðu og horfur efnahagsmála á Íslandi að hvergi meðal aðildarríkja stofnunarinnar sé lakara regluverk í þágu umhverfisverndar en á Íslandi, og munar þar miklu um. Þess var getið í skýrslunni að í kostnaðarmati sem Háskóli Íslands gerði að beiðni íslenskra stjórnvalda sjálfra árið 2022 hafi komið fram að af þeim leiðum sem Ísland gæti farið til að draga úr eða vinna á móti kolefnisfótspori sínu hafi stuðningur við kaup á rafbílum verið metinn á meðal þeirra allra óhagkvæmustu.

Á sama tíma og íslensk stjórnvöld hyggjast halda áfram að leggja áherslu á þetta, hið allra óhagkvæmasta úrræði, til að vinna gegn loftslagsbreytingum, er heildareinkunn Íslands á mælikvarða OECD yfir regluverk í þágu umhverfisverndar 1, en næsta land fyrir ofan Ísland er Spánn með einkuninna 2,5. Meðaleinkunn aðildarríkjanna er 3,33. Frammistaða Íslands er sambærileg við önnur ríki þegar kemur að markaðslausnum á sviðinu, en landið fær núll stig fyrir tækniþróun og sker sig verulega úr í samanburði við önnur lönd þegar kemur að ómarkaðsbundnum lausnum, það er regluverki, fyrirmælum og stöðlum, sem íslensk stjórnvöld beita í mun minni mæli en önnur OECD-ríki.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí