Fæðingarþyngd nýbuara á Gaza-strönd er svo lág að fjöldi þeirra hefur dáið af þeim sökum. Heilbrigðisstarfsfólk lýsir því hvernig sveltandi og alltof léttar þungaðar konur koma á þær fáu heilbrigðistofnanir sem starfhæfar eru. Hungrið á Gaza er gríðarlegt og heilbrigðisstarfsfólk verður þess vart daglega.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá því í gær, þriðjudag. Talskona WHO, Dr. Margaret Harris, greindi frá því á blaðamanna fundi Sameinuðu þjóðanna í Genf í gær að starfsfólk sæi æ oftar börn sem væru við dauðans dyr af sulti. Stofnunin ynni að því í kapp við tíman að koma upp miðstöðvum þar sem hægt væri að veita vannærðum aðstoð. Ein slík væri komin upp á suðurhluta Gaza-strandar og vonast væri til að hægt yrði að koma annari upp í norðurhlutanum. Það væri hins vegar ekki hægt að svo komnu máli, þar eð nauðsynlegt væri að koma þangað tækjabúnaði og matvælum í töluverðu magni. Slíkt væri ógjörningur á öruggan máta eins og ástandið væri í stríðshrjáðum norðurhlutanum.
Hungursneyð er yfirvofandi á allri Gaza-ströndinni. Hátt í 700 þúsund Palestínumenn búa nú þegar við hungur á svæðinu og verði af áformum Ísraela um að ráðast á Rafahborg er gert ráð fyrir að hungursneyð skelli yfir að minnsta kosti milljón mann, um helming allra íbúa Gaza. Dr. Harris lýsti því á fundinum í gær að hungrið á Gaza væri fullkomlega mannanna verk, afleiðing árásarstríðs Ísraela. Eina leiðin til að bregðast við er að opna sannkallaðar flóðgáttir inn á svæðið fyrir neyðaraðstoð, og að vopn verði tafarlaust lögð niður.
Í gær réðist flugher Ísraela á bílalest með neyðargögn í Gazaborg, með þeim afleiðingum að minnsta kosti 24 Palestínumenn féllu. Vel á fimmta hundrað Palestínumenn hafa verið myrtir af Ísraelsher meðan þeir hafa beðið eftir matvælum frá því að stríðsreksturinn hófst.