Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, sagði reynsluna sýna að allur stuðningur til leigjenda til greiðslu húsaleigu, hvort sem það eru húsnæðisbætur eða framfærsluuppbót eins og Efling leggur til, leiði fyrr en síðar til hækkunar á húsaleigu. Þessir styrkir séu því í raun styrkir til þeirra sem okra á leigjendum.
Guðmundur Hrafn segir legjendur í raun aðeins vera milliliði. Ekkert af þessum styrk sitji eftir hjá þeim. Þeir geri ekki annað en að rétta hann til leigusalans í formi hækkaðrar leigu.
Eina leiðin til að hemja leigumarkaðinn, sem grefur undan lífskjörum um 90 þúsund manns, sé að setja á eitthver form af leiguþaki eða leigubremsu. Og ef mæta eigi sérstaklega stöðunni á höfuðborgarsvæðinu verði að koma til einhver mörk á leigufjárhæð við upphaf samnings, þ.e. leiguþak. Takmörkun á hækkunum leigu sé nauðsynleg, þ.e. leigubremsa. En verðið sé orðið það hátt og langt umfram allan kostnað leigusala að það verði að setja mörk á hversu há leigan getur verið.
Guðmundur Hrafn hafnar því að leiguþak og/eða leigubremsa valdi minna framboði á leiguhúsnæði. Hann vísar þar til rannsókna Christine Whitehead prófessors við London School of Economics sem hafi sýnt fram á að regluvæddur leigumarkaður dregur alls ekki úr framboði. Lesa má nánar um rannsóknir Whitehead hér: Leiguþak letur ekki fjárfesta.
Enda má spyrja hverju goðin reiddust á Íslandi, bendir Guðmundur Hrafn á. Hvernig stendur á því husnæðisskortur er hér meiri en nokkurs staðar, fasteignaverð og leiguverð hafi hækkað meira en annars staðar, úr því að hér eru engar hömlur á leiguverði? Óheftur leigumarkaður og braskvæddur húsnæðismarkaður færir okkur ekki mikið af ódýru og öruggu húsnæði heldur þvert á móti skort og okur.
Leigjandinn, þáttur Guðmundar Hrafns á Samstöðinni, hefur göngu sína að nýju í dag.
Sjá má og heyra viðtalið við Guðmund Hrafn í spilaranum hér að ofan.