Gert ráð fyrir að Bandaríkin virði þá stefnu Íslands að vilja helst ekki kjarnavopn

Engin trygging hefur fengist fyrir því að B-2 Spirit þoturnar þrjár sem nú eru í leiðangri í Keflavík, á vegum Bandaríkjahers, beri ekki kjarnavopn í leiðangrinum. Sérstaða vélanna í flugflota Bandaríkjanna snýst að verulegu leyti um að viðhalda kjarnorkuviðbúnaði. Ítrekaðar fyrirspurnir til Utanríkisráðuneytisins leiða til þeirra svara að gert sé ráð fyrir því, í leiðangrinum hingað, að slík vopn séu ekki með í för, enda þekki fulltrúar Bandaríkjahers þjóðaröryggisstefnu Íslands. Þjóðaröryggisstefnan virðist þó ekki alfarið afdráttarlaus í þessum efnum, heldur býsna tillitssöm í garð bandamanna.

Leiðangurinn

B-2 Spirit þoturnar þrjár sem nú eru í leiðangri í Keflavík – hvorki við æfingar, að sögn Bandaríkjahers né við hefðbundna loftrýmisgæslu, heldur í leiðangri eða mission – tilheyra alls 20 slíkum þotum sem Bandaríkjaher hefur yfir að ráða. Þessar 20 þotur eru helmingur þess flugflota sem annast að viðhalda kjarnorkuviðbúnaði Bandaríkjanna, getunni til að svara með kjarnorkusprengjum ef önnur ríki skyldu beita slíkum vopnum. Slíkum viðbúnaði er einnig viðhaldið á sjó, það er í kafbátum, og í landi. Þoturnar voru einkum hannaðar og framleiddar með þetta í huga, rétt áður en kalda stríðið leið undir lok. Flugsveitin sem hér er stödd er raunar sú eina, til þessa, sem hefur beitt kjarnavopnum í hernaði, en árið 1945 var henni falið að varpa kjarnorkusprengjum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Þá er þetta fyrsti leiðangur B-2 Spirit þota frá Bandaríkjunum í um fimm mánuði.

Frá störfum flughersins í Keflavík nú í ágúst 2023. Ljósmynd: Dvids.

Yfirstandandi leiðangur til Íslands er óhjákvæmilegt að líta í ljósi Úkraínustríðsins, ítrekaðra hótana Rússlandsforseta um beitingu kjarnavopna, og líklegs vilja Bandaríkjanna til að tryggja og sýna viðbragðs- og fælingarmátt sinn á því sviði. Þó er rétt er að nefna að B-2 þotum er einnig beitt við hefðbundinn hernað, það er án kjarnavopna, og hafa þær meðal annars verið í notkun í Kosovo-stríðinu, Júgóslavíu, í Afganistan, við innrásina í Írak, og við loftrýmisgæslu í Líbíu.

Eftir sem áður gegna þoturnar svo veigamiklu hlutverki í kjarnorkuviðbúnaði Bandaríkjanna að tilefni virtist til að grennslast fyrir um hversu áreiðanlegt væri að þær bæru ekki kjarnavopn í leiðangri sínum hingað. Í fréttatilkynningum Bandaríkjahers um leiðangurinn hefur ekkert verið gefið upp til eða frá í þeim efnum, frekar en tíðkast, enda er eitt lykilatriði í viðbúnaði Bandaríkjanna að gera ekki ljóst hvar slík vopn eru stödd hverju sinni.

„Hundrað prósent“ engin kjarnavopn

Í fyrstu tilraun til að komast að raun um það hvort kjarnavopn væru með í för í þessum leiðangri varð Þórlindur Kjartansson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, fyrir svörum. Hann sagði „hundrað prósent“ öruggt að engin kjarnavopn væru í vélunum þegar þær kæmu til Íslands. Aðspurður nánar hvort fylgst væri með því af Íslands hálfu sagði hann Bandaríkjamenn þekkja stefnu Íslands „varðandi það að hér séu ekki kjarnorkuvopn“, og „lofa að framfylgja henni“.

Þar sem þekkt er að í sögu varnarsamstarfsins hefur verið misbrestur á því hvernig loforð eru veitt og móttekin virtist rétt að grennslast nánar fyrir um með hvaða hætti þetta loforð hefði verið gefið. Þá ekki síður í ljósi þess að öryggisstefna Íslands virðist ekki taka af öll tvímæli um staðsetningu eða flutninga kjarnavopna um landið.

Hér má sjá hermenn fást við vopnabúnað B2-Spirit vélar í Keflavík, mánudaginn 21. ágúst 2023.

Áslaug Karen Jóhannsdóttir, sérfræðingur við Utanríkisráðuneytið, svaraði frekari eftirgrennslan um málið fyrir ráðuneytisins hönd. Að því gefnu, spurði blaðamaður, að svar Þórlindar standi og herinn hafi lofað íslenskum stjórnvöldum að hingað beri B2 þoturnar ekki kjarnavopn, stendur þó eftir sú spurning hvort íslensk stjórnvöld gangi á einhvern hátt úr skugga um að það sé raunin, eða hvort herinn veitir einhvers konar tryggingu fyrir því. Ef engin slík eftirfylgni eða eftirlit er til staðar, væri þó gott að vita hvaða embætti hefur veitt loforðið og með hvaða hætti, enda má ætla að slíkt loforð hafi ólíkt vægi eftir því hvort það berst, til dæmis, skriflega frá forsetaembættinu sjálfu, eða úr munni liðsforingja.

„Að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga“

Áslaug svaraði:

„Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er afdráttarlaus hvað varðar þá stefnu að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga. Þessi yfirlýsta stefna Íslands hefur verið kynnt og áréttuð við bandalagsríki sem búa yfir kjarnavopnum og hefur það t.d. verið gert í tengslum við heimsóknir loft- og sjófara sem geta borið slík vopn.“

Skáletrun blaðamanns. Blaðamaður fylgdi þessu svari eftir með þremur spurningum. Svör ráðuneytisins við þeim bárust nú á þriðjudagsmorgun.

Í fyrsta lagi: er það rétt skilið að þegar sagt er að Bandaríkin hafi lofað að engin kjarnavopn fylgi B2-vélunum til landsins í yfirstandandi leiðangri þeirra, þá sé aðeins átt við að gert er ráð fyrir að yfirmenn Bandaríkjahers þekki þjóðaröryggisstefnu Íslands?

Svar ráðuneytis: „Bandarísk stjórnvöld eiga náið samráð við íslensk stjórnvöld um undirbúning og framkvæmd allra varnaræfinga og heimsókna erlends liðsafla til Íslands þar sem m.a. er farið yfir reglur og vinnulag varðandi öryggismál og stefnu íslenskra stjórnvalda. Takmarkanir varðandi veru kjarnavopna í einstaka bandalagsríkjum eru vel þekktar og taka kjarnavopnaríkin tillit til þeirra. Þá er rétt að benda á að æfingar með kjarnavopn eru fátíðar enda gilda strangar öryggiskröfur og takmarkanir um alla umferð slíkra vopna.“

Keflavík 18. ágúst 2023. Ljósmynd: Dvids.

„Engin ástæða til að efast“

Í öðru lagi: Er rétt skilið að í þjóðaröryggisstefnunni þýði fyrirvarinn „að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga“ í reynd að kjarnavopn eru hér heimil, svo lengi sem það er á forsendum alþjóðlegra skuldbindinga, á við t.d. stofnsáttmála NATO og/eða varnarsamninginn við Bandaríkin?

Svar ráðuneytis: „Fyrirvarinn þýðir að við framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar skuli taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands, t.d. réttar annarra ríkja til friðsamlegrar farar um hafsvæði í kringum Ísland í samræmi við ákvæði hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna sem og annarra alþjóðlegra skuldbindinga.“

Í þriðja lagi: Ef þetta tvennt er rétt skilið, á hvaða forsendum er þá hægt að halda því fram að það sé hundrað prósent öruggt, eins og aðstoðarmaður ráðherra sagði á dögunum, að engin kjarnavopn fylgi þessum leiðangri eða öðrum sem vænta má eftir að aðstaða í Keflavík var uppfærð til að hýsa einmitt þessar vélar?

Svar ráðuneytis:

„Í svari aðstoðarmanns fólst að hann telur enga ástæðu til að efast um að Bandaríkin virði stefnu Íslands hvað þetta varðar og að ekkert bendi til þess að hún hafi ekki verið virt.“

Þá bætti Áslaug við: „Rétt er að taka fram að uppbygging og endurbætur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli miða ekki sérstaklega að því að hægt sé að hýsa tilteknar flugvélar. Markmið endurbóta er fyrst og fremst að tryggja að hér á landi sé til staðar nauðsynlegur viðbúnaður og aðstaða til að taka á móti liðsafla bandalagsríkja og tilheyrandi búnaði, hvort sem um er að ræða varnaræfingar eða framkvæmd verkefna, t.d. kafbátaeftirlit eða loftrýmisgæslu.“

Loforð Bandaríkjanna um að engin kjarnavopn fylgi í leiðangrum flughersins hingað til lands hefur með öðrum orðum ekki verið veitt, heldur er gert ráð fyrir því. Nánar til tekið er gert ráð fyrir því að Bandaríkin virði stefnu Íslands í málinu, stefnu sem þó er ekki ljóst að sé alfarið afdráttarlaus um fjarveru slíkra vopna.

Keflavík, ágúst 2023. Liðsmenn flughersins fást við vopnabúnað B-2 Spirit vélanna. Ljósmynd: Dvids.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí