Síðastliðinn þriðjudag birti Samstöðin umfjöllun um þær forsendur sem íslensk stjórnvöld segja fyrir fullvissu sinni um að B2 herþoturnar sem nú hafast við í Keflavík beri ekki kjarnavopn. Með umfjölluninni birtust ljósmyndir sem herinn sjálfur deildi gegnum miðstöð kynningarmála, DVIDS. Á myndunum gefur að líta liðsmenn hersins hlaða þoturnar með hlutum sem líta út eins og sprengjur. Við æfingar er til í dæminu að slíkir hlutir séu þó ekki sprengjur í reynd, heldur aðeins ætlað að líkja eftir þeim, að þyngd og lögun. Ýmislegt bendir þó til að hér hafi verið um sprengjur að ræða, en lesa má á merkingar þeirra á ljósmyndunum. Þar má meðal annars lesa „Tritonal“ á oddi eins sprengjulegs hlutar, en tritonal er sprengiefni blandað úr TNT og álsalla. Ef merkingarnar eru réttar, og ef þær eiga við um alla þessa muni, þá eru þar ekki kjarnavopn á ferð heldur hefðbundin vopn.
Daginn eftir að þessi umfjöllun birtist ætlaði blaðamaður að fletta gegnum fleiri ljósmyndir frá hernum. Þá bar svo við að allar myndirnar sem þessi vopn birtust á voru horfnar af síðu kynningarmiðstöðvarinnar. Ekki er ljóst hvað olli. Eftir stóðu aðrar myndir sem birst höfðu, aðeins myndir af vopnunum sjálfum virðast hafa verið fjarlægðar. Nú fimm dögum síðar hafa þær ekki birst á ný, og engar nýjar myndir frá leiðangrinum í Keflavík, sem þó hafði verið nokkuð ötullega kynntur með myndefni fram að því.