Leiðangur B2 sprengjuþotanna til Íslands er sá fyrsti í fimm mánuði, eftir viðgerðir vegna eldsvoða

Þrjár sprengjuþotur Bandaríkjahers af gerðinni B2 Spirit eru nú í leiðangri í Keflavík. Fyrsti flugdagur þeirra eftir komuna til landsins var í gær, miðvikudag. Þetta er fyrsti leiðangur þotanna frá því að eldsvoði varð í einni þeirra undir lok síðasta árs, sem leiddi til þess að þeim var öllum lagt til að sinna viðgerðum og viðhaldi. Það er þó ekki fyrsta óhappið sem þoturnar hafa orðið fyrir, sem voru öðru fremur hannaðar til að bera kjarnavopn og beita þeim.

Rigningarvandinn 2008

Þotur af þessari gerð hafa verið í notkun í 34 ár eða frá því að kalda stríðinu lauk. Og einmitt þess vegna urðu þær ekki fleiri en raunin er: af þeim 132 þotum sem fyrirhugaðar voru, var aðeins 21 vél smíðuð og tekin í notkun.

Ein B2 vélanna brotlenti árið 2008, rétt eftir að takast á loft frá Anderson flugherstöðinni í Guam, og var í kjölfarið tekin í notkun. Síðan þá eru vélarnar alls 20. Rannsókn sem fór fram í kjölfarið á brotlendingunni leiddi í ljós að áköf rigning hafði valdið raka á þeim mælum vélarinnar sem safna gögnum um loftið sem hún er stödd í, og liggja til grundvallar útreikningum á hæð vélarinnar og hraða, en öll stýring hennar fer fram í gegnum tölvubúnað sem styðst við þessi gögn. Að sögn Air Force Times, tímarits sem miðlar upplýsingum til liðsmanna flughersins, bar vélin engin vopn þegar óhappið varð. Þá sakaði flugmennina ekki, þeir skutu sér úr vélinni í tæka tíð og lentu heilir á húfi í hæfilegri fjarlægð frá brotlendingarstaðnum.

Þess má vænta að eftir slys sem þetta fari fram grandskoðun á öllum kerfum, til að tryggja að sama atburðarás endurtaki sig ekki. Enda var þeim 20 vélum sem eftir voru lagt í kjölfarið á atvikinu, til tveggja mánaða viðhaldsvinnu, áður en þær voru teknar í notkun á ný.

Eldsvoðinn 2010 og lendingarvandræðin 2021

Árið 2010 var önnur vél úr þessum hópi tekin úr notkun eftir eldsvoða sem reyndist valda verulegu tjóni á vélinni. Eldurinn kviknaði er vélin var við það að hefja sig á loft, líka við herstöðin á Guam. Viðgerðir á þotunni tóku fjögur ár, hún var aftur tekin í notkun 2014.

Enn eitt óhapp varð í september árið 2021, þegar bilun varð í lendingarbúnaði einnar vélanna, er hún kom til lendingar á flugbraut Whiteman herstöðvarinnar í Missouri. Vélin rann þá af flugbrautinni og staðnæmdist loks utan hennar, í um einnar mílu fjarlægð frá fyrsta snertipunkti hennar við jörðu. Skemmdirnar sem urðu á vélinni við þetta óhapp var metið á um tíu milljónir dala, einn og hálfan milljarð króna, en ekkert tjón varð á fólki. Eftir viðgerðir og viðhald var vélin aftur tekin til notkunar.

Nauðlendingin 2022 og hléið í kjölfarið

Eins og Samstöðin greindi frá í vikunni varð loks ein vélanna fyrir óhappi undir lok síðasta árs. Það var einnig á Whiteman herstöðinni, aftur varð eldsvoði í einni þotanna, sem kom þá inn til nauðlendingar. Í kjölfarið á því atviki voru allar 20 þoturnar teknar úr umferð til viðhalds, og voru þær ekki í notkun langt fram á þetta ár, alls í fimm mánuði.

Þær þrjár B2-þotur sem nú eru við æfingar í Keflavík eru þar með í fyrsta leiðangri þessa flota frá eldsvoðanum á Whiteman stöðinni. Í fréttatilkynningu flughersins sjálfs er erindi vélanna hér sagt vera „Bomber Task Force mission“. Sprengjusveitarleiðangur mætti hugsanlega þýða það. Í sömu fréttatilkynningu segir til nánari útskýringar að Evrópusprengjusveit Bandaríkjahers veiti leiðtogum Bandaríkjanna og ríkja Atlantshafsbandalagsins strategíska valkosti til að tryggja, fæla og verjast hvaða óvinveittu aðgerðum sem vart gæti orðið gegn bandalaginu, í Evrópu eða heiminum öllum. Svo fylgja nokkur orð um kosti „reglubundinnar beitingar strategískra sprengjuþota Bandaríkjanna“.

Loforð bandarískra stjórnvalda

Þær tuttugu B2 sprengjuþotur sem Bandaríkin hafa yfir að ráða eru helmingur þeirra flugvéla Bandaríkjahers sem nýtast í þeim strategíska tilgangi að hafa ávallt kjarnavopn til reiðu, og þær einu sem dyljast á ratsjám, einu svokölluðu „stealth“-vélarnar í þeim flota. Kjarnavopnin eru ætluð til gagnárása, ef eitthvert óvinveitt ríki skyldi gefa tilefni til, þá helst ef það myndi beita kjarnavopni á Bandaríkin eða bandalagsþjóðir þeirra. Kerfi viðvarandi gagnkvæmra hótana um tortímingu gengu á tíma kalda stríðsins undir heitinu M.A.D., Mutual assured destruction.

Íbúar Íslands geta þó andað rólega, að sögn hérlendra yfirvalda, enda hafa bandarísk stjórnvöld veitt loforð um að þoturnar beri ekki kjarnavopn þegar þær eru sendar til leiðangra á Íslandi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí