Á Keflavíkurflugvelli eru nú þrjár B2 herþotur á vegum Bandaríkjarhers. Þoturnar eru sérsmíðaðar til að bera kjarnavopn, allt að sextán sprengjur hver, en Bandaríkjamenn hafa lofað íslenskum stjórnvöldum að engin slík vopn séu meðferðis í leiðangri vélanna til Íslands. Tilgangurinn með dvöl þeirra hér er sagður að ítreka fælingarmátt Bandaríkjanna og bandalagsríkja þeirra.
21 vél af þessum toga hefur verið smíðuð, þar af voru 20 enn í notkun árið 2015. Þær eru allar í eigu Bandaríkjahers. Undir lok desember á síðasta ári var öllum vélunum lagt og þær teknar til viðhalds eftir slys sem varð við lendingu einnar þeirra, þegar eldur braust út í vélinni. Slökkvilið á Whiteman herstöð flughersins, í Missouri, slökkti eldinn áður en stórtjón varð. Ekki kom fram í tilkynningum um atvikið hvort sú vél hefði í því flugi borið kjarnavopn, en Bandaríkjaher gefur að jafnaði ekki upp hvar þau vopn eru staðsett.
Svo virðist vera sem könnun, viðhald og viðgerðir hafi heppnast nógu prýðilega til að vélarnar eru aftur komnar á flug. Fyrsti flugdagur þeirra við þessar æfingar á Íslandi var í gær, þriðjudag.