B-2 Spirit herþotunum þremur sem þann 13. ágúst hófu leiðangur sinn á Íslandi fylgir herlið úr 393. sprengjuleiðangrasveit bandaríska flughersins (393rd Expeditionary Bomb Squadron). Þetta kemur fram í allri umfjöllun Bandaríkjahers um leiðangurinn.
393ja sveitin er sú eina sem beitt hefur kjarnavopnum í hernaði, þegar henni var falið að varpa kjarnasprengjum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945. Vélarnar og 150 manna liðsaflinn sem fylgir þeim hófu leiðangur sinn hér á landi aðeins örfáum dögum eftir að kjarnorkuárásanna var minnst með árlegri kertafleytingu.
Sömu sveit var síðar falið að gera kjarnorkutilraunirnar á Bikini-kóralrifinu við upphaf kalda stríðsins. Starf hennar hefur snúist um flugvélar sem búa má kjarnavopnum síðan þá, nú síðast fyrrnefndar B-2 Spirit sprengjuþotur, frá því herinn tók þær í fulla notkun árið 1993.
Íslensk stjórnvöld segja þó „hundrað prósent“ öruggt að B-2 vélarnar í Keflavík beri ekki kjarnavopn í þessum leiðangri, enda hafi bandarísk stjórnvöld lofað því.