Herforingi heimsótti B2 þoturnar í Keflavík, „virtasta og mest ógnvekjandi vopnakerfi heims“

„B2 er virtasta og mest ógnvekjandi vopnakerfi heims. Heimurinn fylgist með hvenær sem við virkjum það, bandamenn og andstæðingar gefa því jafn mikinn gaum.“ Þetta er haft eftir Stephen Bressett, yfirmanni 393. sprengjuleiðangurssveitar Bandaríkjahers (393rd Expeditionary Bomb Squadron), í fréttatilkynningu sem herinn sendi frá sér í gær, fimmtudag, um leiðangur sveitarinnar í Keflavík.

Sveitin hefur umsjón með hluta kjarnavopnabirgða Bandaríkjanna, ásamt B2 sprengjuþotum. Leiðangurinn í Keflavík hefur staðið frá 13. ágúst. Ekkert hefur verið látið uppi um hversu lengi hann varir en B2 þoturnar þrjár sem flugu yfir höfuðborgarsvæðið á dögunum hafast enn hér við, ásamt um 150 manna fylgdarliði og öðrum búnaði.

Keflavík, 28. ágúst 2023. Hecker er lengst til vinstri. Nöfn hinna tveggja koma ekki fram á fréttasíðu Bandaríkjahers.

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur

Í vikunni heimsótti herforinginn James B. Hecker leiðangursmenn sprengjusveitarinnar í Keflavík, en Hecker er yfirmaður alls afla bandaríska flughersins í Evrópu. Hér hitti hann, samkvæmt fréttamiðli Bandaríkjahers, forystumenn varnarmála frá Noregi og Íslandi. Í Keflavík veitti hann fjórum flugmönnum viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í yfirstandandi leiðangri sveitarinnar á Íslandi. Ekki hafa borist fréttir af því hér innanlands í hverju verkefni sveitarinnar eru fólgin dag frá degi og hver hinn framúrskarandi árangur væri. Í fréttatilkynningu Utanríkisráðuneytisins kemur fram að herforinginn hafi fundað með utanríkisráðherra, rætt átökin í Úkraínu, „þróun öryggismála og viðbúnað bandalagsins“.

Náin samvinna hersins við íslensk stjórnvöld

Í fréttatilkynningu flughersins er haft eftir fyrrnefndum Bressett að náin samvinna hersins við íslensk stjórnvöld undirstriki „hernaðarlegt mikilvægi (strategic importance) tvíhliða sambandsins og staðfasta skuldbindingu Bandaríkjanna við NATO“. Þá er vísað í áætlun sem kynnt var í ágúst á síðasta ári undir heitinu ACE eða Agile Combat Employment, sem felur í sér nýtt skipulag á staðsetningu vopnabirgða og viðbúnaðar, í ljósi nýrra og breytilegra aðstæðna. Segir í tilkynningunni, í samhengi við leiðangurinn í Keflavík, að „sveigjanleiki ACE-áætlunarinnar“ geri bandaríska flughernum kleift að reiða fram „hernaðarlegan fælingarmátt“ (strategic deterrence) utan landamæra Bandaríkjanna.

Drápstól í aðflugi, 30. ágúst 2023. Ljósmynd: Robert Hicks.

Í stað þess að líta á herstöðvar erlendis sem griðastaði, segir þar, mætir ACE „breytilegum ógnum samtímans“ með því að færa hernaðarmátt flughersins (strategic airpower) yfir á net smærri bækistöðva og dreifðar staðsetningar. „Við erum enn sem fyrr strategískt fyrirsjáanleg – til reiðu búin að mæta öllum öryggisskuldbindingum okkar hnattlægt, um leið og við erum ófyrirsjáanleg í framkvæmd og sýnum getu okkar til að reiða fram hnattlæga árás hvaðan sem er, hvenær sem er. Sprengjusveitirnar gera okkur kleift að þjálfa þá vöðva,“ sagði Bressett.

Orðalagið strategic deterrence hefur frá því í kalda stríðinu helst verið notað í samhengi við fælingarmátt eða gagnkvæma ógn kjarnavopna. Þó eru á síðari árum dæmi um að rætt sé um fælingarmátt í víðara samhengi. Íslensk stjórnvöld hafa sagst fullviss um að engin kjarnavopn séu með í för í þessum leiðangri. Vísbendingar eru um að þoturnar séu hlaðnar svonefndum tritonal-sprengjum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí