Forstjóri Eimskips hunsaði aðvaranir lögfræðings vegna árlegs golfmóts við Samskip

Meðal þess sem kemur minnst á óvart við lestur ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum er að æðstu stjórnendur Samskipa og Eimskips hafi ítrekað nýtt golfferðir og golfmót sem vettvang hins ólögmæta samráðs. Hugsanlega samræmist ekkert betur þeirri hugmynd sem fólk án beinnar reynslu af slíkum samsærum gæti haft um það hvar og hvernig þau fara fram.

Um sameiginleg golfmót Eimskips og Samskipa reyndu stjórnendur fyrirtækjanna að ljúga, við eftirgrennslan, eins og um margt annað. „Já, þau voru fyrir minn tíma,“ er haft eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, í þriðja bindi ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins, „og ég lagði þau af. Mér fannst það alveg fáránlegt.“

„Framangreind staðhæfing [forstjórans] „er ósönn“ segir í næstu setningu skýrslunnar, skýrt og skorinort. Síðan er þar rakin sú samskiptaslóð sem stjórnendurnir skildu eftir sig kringum golfmótin.

„Ertu á landinu 22. maí, golfmót við Eimskip“

Þann 13. maí 2009 sendi Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, tölvupóst til undirmanns þar sem sagði: „Ertu á landinu 22. maí, golfmót við Eimskip.“

Ári síðar, 3. maí 2010, hvatti hann undirmenn sína til þess að hitta og spila golf við starfsmenn Eimskips. Á golfmótið 2011 var Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, sjálfur á meðal þeirra sem voru skráðir til leiks á mótið. Í tölvupósti sem sendur var út um liðsskipan var tekið fram að veitingar yrðu í boði Samskipa. Þá var nefnt að enn vantaði sex leikmenn fyrir Eimskip og hvatti Gylfi, forstjórinn, fólk til þátttöku með tölvupósti í framhaldinu: „Þið hin sem uppá vantar – þið verðið að fórna ykkur fyrir félagið og tryggja að bikarinn komi heim. Ég stóla á ykkur.“ Daginn fyrir golfmótið sendi viðskiptastjóri hjá Samskipum tölvupóst meðal annars til Ásbjörns Gíslasonar, forstjóra félagsins, og greindi honum frá uppstillingu liða beggja fyrirtækja.

Fyrir golfmót stjórnenda og lykilstarfsmanna Eimskips og Samskipa 2012 heimilaði Ásbjörn, forstjóri Samskipa, að fyrirtækið myndi greiða mótsgjaldið fyrir leikmenn þess. Gylfi Sigfússon, sá sem sagði Samkeppniseftirlitinu að sér hefðu þótt mótin fáránleg og lagt þau af, sendi þetta ár tölvupóst og bauð sig sérstaklega fram til þess að spila við Samskip.

Lögfræðingurinn sem reyndi

Ein rödd heyrðist þó innan fyrirtækjanna sem var raunverulega mótfallin þessu samneyti: framkvæmdastjóri lögfræðideildar Eimskips, sendi tölvupóst til forstjórans, Gylfa, ásamt framkvæmdastjóra sölu- og þjónustudeildar, og lýsti áhyggjum sínum af fyrirhuguðu golfmóti félaganna. Í birtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins eru stjórnendur og starfsmenn fyrirtækjanna ekki nafngreindir, en að því er blaðamaður kemst næst var Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri lögfræðideildarinnar á þessum tíma.

Í póstinum vísaði Heiðrún, að því er kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, til símtala sem átt höfðu sér stað fyrr um daginn. Hún nefndi að árið áður hefði verið haldið sérstakt námskeið um samkeppnisreglur og haldið próf í tengslum við aðgerðir innan Eimskips, til að tryggja að fyrirtækið færi ekki gegn samkeppnislögum. Á námskeiðinu hefði þetta árlega golfmót fyrirtækjanna verði gert að umræðuefni, það hefði verið trú hennar að því fyrirkomulagi hefði verið breytt í kjölfarið og Eimskip fundið nýtt fyrirtæki til að keppa við.

„Það afsakar í engu þótt þetta sé gamall siður“

Heiðrún skrifaði stjórnendunum:

„Auðvitað er það svo að það er ekki bein grein í samkeppnislögum sem bannar mönnum að spila golf – en hins vegar er það svo að samráðsreglur réttarins eru víðtækar og ströng viðurlög.

Ef við gætum fullyrt og ábyrgst á þessu gólfmóti að enginn myndu í nokkru ræða sölumál, markaðsmál, markaðinn, afsláttarkjör o.s.frv. þá hefði ég ekki miklar áhyggjur, en þar sem nokkur hætta er á að menn ræði viðskiptin þá skil ég ekki að við leyfum þetta mót. Það er nú einu sinni svo að þegar þú hittir fólk þá byrjar maður að ræða sameiginlegan flöt sem í þessu tilviki er markaðurinn, sölumál, afslættir o.fl. Það er ekki nokkur leið að við getum verið þess fullviss að aðilar ræði ekki þessi mál – og ég sé enga ástæðu til að búa til þennan samtalsgrundvöll.

Það afsakar í engu þótt þetta sé gamall siður, það er einmitt tilgangurinn með því að fara yfir verklag og bæta gamla siði og sníða að eitthvað sem gæti skapað einhverjar hættur. Eins og vel var farið yfir í fyrra þá er það ekki eingöngu samráð ef yfirmenn ræða saman, samtöl o.fl. t.d. sölumanna geta vel fallið þar undir og það án vitneskju ykkar.

Ásýnd okkar sem félag í harðri samkeppni er líka undarleg ef við erum á milli þess að keppa á markaði að spila gólf og spjalla við samkeppnisaðilana – í það minnsta myndi það ekki falla í kramið að hafa opið OLIS-Shell-N1 gólfmót – held reyndar að engum myndi detta það í hug.“

Lauk störfum hjá Eimskip sama ár

Forstjóri Eimskips lagði sig ekki eftir að fylgja þessari afdráttarlausu viðvörun. Golfmót stjórnenda og lykilstarfsmanna Samskipa og Eimskips fór fram þann 18. maí 2012 og aftur ári síðar, 17. maí 2013. Forstjórar félaganna tveggja léku ekki aðeins golf hvor við annan sumarið 2012 heldur fóru þeir einnig saman í veiðiferð í Selá, í lok ágúst það ár.

Hvort viðvaranir lögfræðingsins og það að forstjórinn skellti skollaeyrum við þeim hefur eitthvað að gera með starfslok Heiðrúnar Jónsdóttur hjá fyrirtækinu kemur ekki fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Heiðrún, sem hafði starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2006, lauk störfum þar og sneri sér að öðru þetta árið 2012, árið sem forstjórinn hunsaði aðvaranir hennar vegna golfmótanna.

Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.

Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“

Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí