Stjórnendur Eimskips lýstu ávinningnum af ólögmætu samráði haustið 2008 sem „alsælu“

Megintímabil samkeppnislagabrota Eimskipa og Samskipa hófst, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Samkeppniseftirlitsins árið 2008, rétt fyrir efnahagshrun, og stóð til 2013. Vorið og sumarið 2008 sáu stjórnendur fyrirtækjanna blikur á lofti í efnahagsmálum og áttu fjölda funda um hvernig bregðast mætti við versnandi efnahagshorfum og minnkandi eftirspurn með ólögmætu samráði.

Í skýrslunni eru þær persónur sem réðu samráðinu ekki nafngreindar. Margsinnis kemur „aðaleigandi Samskipa“ fyrir í sögu samráðsins, án þess að nafn hans fylgi. Aðaleigandi Samskipa er Ólafur Ólafsson. Í mars 2008 gaf Ólafur fyrirmæli til stjórnarmanna og lykilstjórnenda um að grípa til aðgerða til að vernda og efla stöðu rekstur félagsins á Íslandi sem „Cash Cow“ fyrir alþjóðlegu samstæðuna Samskip Holding. Gullgæs má líklega segja á íslensku. Vitnað er í eftirfarandi orð í samantekt Samkeppniseftirlitsins: „Maximise the business and protect the Cash Cow which Iceland has been for the Group“. Verja skyldi gullgæsina. Segir þar að gögnin sýni að Ólafur, sem eigandi, hafi hvatt forstjóra félagsins til að „beita sér í samráðinu við Eimskip, m.a. með loforði um bónusgreiðslu.“

„Nýtt upphaf“ ólögmæts samráðs árið 2008

Í samantektinni segir að ólögmætt samráð hafi staðið milli fyrirtækjanna allt frá árinu 2001, hið minnsta. Sumarið 2008 færðist það hins vegar á nýtt stig og hófust alvarlegustu brot fyrirtækjanna á þeim tíma. Hið nýja og nánara samráð fyrirtækjanna hófst með fundi sem haldinn var í húsakynnum fjárfestingarfélagsins Kjalar, í eigu Ólafs Ólafssonar. Þar mæltu Ólafur, aðalaeigandi Samskipa og Ás­björn Gísla­son, forstjóri félagsins, sér mót við Sindra Sindrason, stjórnarformann Eimskipa og Gylfa Sig­fús­son, forstjóra þess félags. Á fundinum ákváðu þeir fyrir hönd fyrirtækja sinna að hefja verkefni sem þeir nefndu „Nýtt upphaf“. „Þetta verkefni hafði það að markmiði að raska samkeppni í skilningi 10. greinar Samkeppnislaga,“ segir í samantekt Samkeppniseftirlitsins „og var ólögmætt.“

„Tilgangur verkefnisins var að kanna ábata fyrirtækjanna af því að „auka“ ólögmætt samráð fyrirtækjanna sem þá var fyrir hendi,“ en fyrirtækinu höfðu þá þegar sín á milli haft verðsamráð og markaðsskiptingu milli Samskipa og Eimskips í Hollandi, samráð í sjóflutningum milli Íslands og annarra ríkja, samráð í landflutningum á Norðurlandi og samráð í skipaafgreiðslu, að því er fram kemur í samantektinni.

Þá segir í samantekt Samkeppniseftirlitsins: „Í „Nýtt upphaf“-verkefninu fólst að Samskip og Eimskip ákváðu að skiptast á viðkvæmum upplýsingum og meta saman ábata af því að auka samstarf í grundvallarþáttum í starfsemi fyrirtækjanna. Tók þetta til siglingakerfa, sjóflutninga til og frá Íslandi, markaðsskiptingar, skipaafgreiðslu á Íslandi, landflutninga á Íslandi, dótturfélaga í Noregi sem önnuðust útflutning á frystum fiski frá m.a. Íslandi og Noregi, flutningsmiðlunar, sjóflutninga milli hafna á meginlandi Evrópu (svonefndra „short sea“-flutninga) og frystigeymslurekstrar í Hollandi.“

Sátu á svikráðum yfir kaffibolla á Mokka

Næsta hálfa árið áttu stjórnendur fyrirtækjanna minnst 19 fundi þar sem þeir ræddu einstaka þætti þessa ólögmæta samráðs. Meðal annars hittust framkvæmdastjórar landflutninga beggja félaga á kaffihúsinu Mokka þann 4. júlí 2008 og ræddu aukið samráð í landflutningum. Auk þess áttu stjórnendur félaganna að minnsta kosti 18 sinnum samskipti í síma eða tölvupósti á sama tímabili.

Haustið 2008, um það leyti sem efnahagshrunið dundi yfir, skilaði samráðið fyrirtækjunum verulegum ábata: „Mikilvægur áfangi í samráði Samskipa og Eimskips náðist síðsumars og haustið 2008, með breytingum á siglingakerfum og takmörkun á flutningsgetu,“ segir í samantekt Samkeppniseftirlitsins. Samskip ákváðu í lok október að fækka skipum í siglingum til og frá Íslandi úr fjórum í þrjú. Eimskip tóku þá að sér að, meðal annars, að flytja hluta af því áli sem Samskip hefðu annars flutt fyrir Alcoa.

„Á grundvelli samráðsins náðu Samskip því annars vegar að skerða þjónustu gagnvart Alcoa og hins vegar hækka verð um 131% gagnvart þeim mikilvæga viðskiptavini.“ Í samantekt Samkeppniseftirlitsins kemur fram að „mikil ánægja“ hafi ríkt innan Eimskips með þau viðskipti sem fyrirtækið fékk á grundvelli samráðsins og þeim meðal annars lýst sem „alsælu.“

Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.

Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“

Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí