„Brot Samskipa voru alvarleg og umfangsmikil og náðu yfir langt tímabil, á mörkuðum þar sem þátttakendur samráðsins höfðu yfirburðastöðu,“ segir í samantekt Samkeppniseftirlitsins á niðurstöðum rannsóknar þess á samkeppnisbrotum fyrirtækisins.
Ólögmætt samráð fyrirtækjanna á tímabilinu 2008 til 2013 var fjölþætt. Alls skiptir Samkeppniseftirlitið ólögmætu samráði Samskips við Eimskip í tíu flokka.
Þar á meðal er tilgreint að Samskip hafi brotið af sér með samráði um breytingar á siglingakerfum og takmörkun flutningsgetu; með samráði um skiptingu á mörkuðum eftir stærri viðskiptavinum í sjó- og landflutningum, það er fyrirtækin forðuðust að keppa um stærri viðskiptavini hvort annars; með samráði um álagningu gjalda og afsláttarkjör í flutningsþjónustu og miðlun á mikilvægum upplýsingum um verð og viðskipti; með samráði um landflutningaþjónustu og skiptingu á mörkuðum á tilteknum flutningaleiðum á Íslandi; með samráði um sjóflutninga milli Íslands og annarra landa; og með samráði um skipaafgreiðslu, gagnkvæma leigu eða lán á gámum.
Umfangið og áhrifin
Til að gera grein fyrir umfangi og alvarleika brotanna er tilgreint í samantektinni að á tímabilinu sem um ræðir, frá 2008 til 2013, hafi Samskip og Eimskip samanlagt verið með „um og yfir 90% hlutdeild í sjóflutningum milli Íslands og Evrópu, 100% í sjóflutningum milli Íslands og Norður-Ameríku nær allt tímabilið og um og yfir 75 til 80% hlutdeild í landflutningum, ef miðað er við landið allt.“ Fyrirtækinu séu á meðal stærstu fyrirtækja á Íslandi og hafi tekjur þeirra af flutningastarfsemi numið „um 2,4 til 2,6 prósentum af vergri landsframleiðslu“ þ.e. af verðmæti allrar þeirrar vöru og þjónustu sem er framleidd og boðin á landinu á hverju ári. Ein króna af hverjum 40 sem höndlað var með í landinu á þessu tímabili gengu þannig til fyrirtækjanna tveggja.
Þá segir í samantektinni: „Samkeppni í flutningum skiptir miklu máli fyrir lífskjör almennings og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Voru því brýnir almannahagsmunir fólgnir í því að Eimskip og Samskip virtu bann við hvers konar samkeppnishamlandi samráði keppinauta. Ella gátu neytendur, fyrirtæki og þjóðarbúið í heild sinni orðið fyrir miklu efnahagslegu tjóni.“
Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum
Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.
Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.
Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“
Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“
Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.