Samkvæmt skýrslu Samkeppnisstofnunar voru fjárhagsþrengingar Ólafs Ólafssonar aðaleigenda Samskipa kveikjan að hinu víðtæka samráði milli skipafélaganna um verðhækkanir á síðari hluta árs 2008, í aðdraganda og eftir bankahrunið. Þar sem Ólafur var meðal aðalleikara sem stærsti hluthafinn í Kaupþing.
Eigendur Eimskip á þessum tíma var Avion Group, fyrirtækjasamstæða Magnúsar Þorsteinssonar. Magnús eignaðist félagið í uppgjöri milli hans og Björgólfsfeðga árið 2005, en þeir höfðu auðgast saman í Rússlandi og keypt í kjölfarið Landsbankann saman, Eimskip og fleiri fyrirtæki á Íslandi. Magnús var í álíka vanda og Ólafur árið 2008 en tókst ekki að halda fyrirtækjum sínum, öfugt við Ólaf.
Stærstu kröfuhafar Eimskips tóku félagið yfir. Stærsti hluthafinn varð bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Yucaipa og Gamli Landsbankinn. Og þessir aðilar héldu samráðinu við, samsærinu gegn íslenskum neytendum og fyrirtækjum. Eimskip var skráð á markað 2012 en samkvæmt skýrslu Samkeppniseftirlitsins linnti hinu víðtæka samráði ekki fyrr en ári síðar.
Það er hlægilegt að lesa tilkynningar frá skipafélögunum frá þessum árum. „Þrátt fyrir mjög erfið rekstrarskilyrði hefur tekist að snúa afkomu félagsins við. Reksturinn hefur verið sniðinn að breyttum markaðsaðstæðum og er árangur þeirrar vinnu að líta dagsins ljós,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipa, í einni slíkri kynningu. Samkeppniseftirlitið hefur kært Gylfa og aðra allra helstu þátttakendur í samráðinu, tvo frá hvoru skipafélagi, til saksóknara svo hægt sé að höfða sakamál gegn þeim.
Ólafur Ólafsson auðgaðist þegar hann komst yfir eignir Sambandsins þegar sú fyrirtækjasamsteypa riðaði til falls. Hann er aðaleigandi Samskipa og hefur sagst eiga í fyrirtækjum víða um heim. Hér heima eru helstu eignir hjónanna hér á landi fasteignaþróunarfélagið Festir, fasteignafélagið Festing, fisksölufélagið ASI og jarðir á Snæfellsnesi. Festir fer með uppbyggingu á lóðum sem Samskip átti, eignum sem Ólafur náði að sölsa undir sig frá Sambandinu, sem var félag í eigu mikils fjölda landsmanna.
Ólafur býr á herragarði í Frakklandi, hefur ekki haft lögheimili á Íslandi síðan fyrir Hrun og því ekki borgað hingað skatta. Skip Samskipa eru ekki skráð á Íslandi. Ólafur hefur því skipulega komið sér undan því að borga nokkuð til íslensks samfélags en hins vegar blóðmjólkað það með margskonar hætti.
Í úttekt á ríkustu Íslendingunum áætlaði Viðskiptablaðið fyrr á árinu að eignir Ólafs og eiginkonu hans, Ingibjargar Kristjánsdóttur, væru á um 30-40 milljarðar króna. Ætla má af úttekt Samkeppnisstofnunar að Ólafur hefði misst allt sitt í Hruninu ef hann hefði ekki stuðlað að samsæri Samskipa og Eimskipa á árinu 2008, sem leiddi til þess að fyrirtæki og almenningur á Íslandi neyddist til að borga okurverð fyrir flutninga til og frá landinu.
Um þetta segir í samantekt Samkeppniseftirlitsins yfir helstu atvik samráðsins:
„Gögn málsins sýna að á fyrri hluta ársins 2008 höfðu Samskip hf. á Íslandi til athugunar hvernig bregðast skyldi við versnandi efnahagshorfum og minnkandi eftirspurn eftir innflutningi. Komu tvær leiðir til greina. Annars vegar að auka samkeppni Samskipa við Eimskip, þ.e. að ná til sín viðskiptavinum Eimskips og bæta nýtingu skipa. Hins vegar að auka samráð Samskipa við Eimskip. Varð síðari leiðin fyrir valinu.
Þótt rekstur Samskipa hf. á Íslandi hafi gengið vel, stóðu Samskip Holding, þ.e. hollenskt móðurfélag Samskipasamstæðunnar, og aðaleigandi þess frammi fyrir fjárhagslegum áskorunum á árinu 2008. Annars vegar vegna krafna helsta lánveitanda Samskipa Holding, Fortis banka, og hins vegar vegna áskorana sem aðaleigandinn stóð frammi fyrir sem næst stærsti eigandi Kaupþings banka hf. í aðdraganda hrunsins, í gegnum fjárfestingarfélög.
Í mars 2008 gaf aðaleigandi Samskipa fyrirmæli til stjórnarmanna og lykilstjórnenda um að grípa til aðgerða til að vernda og efla stöðu Samskipa á Íslandi sem „Cash Cow“ fyrir Samskipasamstæðuna („ maximise the business and protect the Cash Cow which Iceland has been for the Group“). Var þannig skýrum fyrirmælum beint til m.a. forstjóra Samskipa á Íslandi um að tryggja og auka fjárflæði frá starfseminni hér á landi til Samskipa Holding. Sýna gögnin að aðaleigandi Samskipa hvatti forstjóra Samskipa til að beita sér í samráðinu við Eimskip, m.a. með loforði um bónusgreiðslu. Á sama tíma átti Eimskip í miklum fjárhagserfiðleikum sem stöfuðu einkum af skuldum vegna fjárfestinga erlendis. Í maí 2008 urðu forstjóraskipti hjá Eimskipi. Í tölvupósti forstjóra Samskipa til aðaleiganda Samskipa kemur fram það mat hans að við skiptin verði „mýktin meiri, og dregur úr hörkunni“. Kvaðst forstjóri Samskipa þekkja vel hinn nýja forstjóra Eimskips.
Þessi og önnur tengsl milli lykilstjórnenda Samskipa og Eimskips gerðu Samskipum án efa auðveldara en ella að nálgast Eimskip með það að markmiði að auka ólögmætt samráð fyrirtækjanna. Þá voru samskiptin og tengslin til þess fallin að viðhalda hinu ólögmæta samráði út rannsóknartímabil þessa máls.“
Rætt var við þá Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, Stefán Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri VR og Ásgeir Brynjar Torfason sérfræðingur í fjármálum til að ræða skort á samkeppni á Íslandi, okur og fákeppni. Og hvað væri til ráða til að bregðast við verðsamráði stórfyrirtækja á fákeppnismarkaði, sem væri aðaleinkenni íslensks viðskiptalífs. Sjá má og heyra samtalið hér:
Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum
Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.
Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.
Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“
Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“
Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.