Til að skipta á milli sín innanlandsmarkaði funduðu stjórnendur Samskipa og Eimskips í Smáralind

Við sögðum síðast skilið við þá Jörund Jörundsson, framkvæmdastjóra landflutninga innan Samskipa, og Guðmund Nikulásson, framkvæmdastjóra innanlandssviðs Eimskips, þar sem þeir funduðu á kaffihúsinu Mokka á blíðviðrisdegi þann 4. júlí 2008, og lögðu á ráðin um tvennt: annars vegar hvernig fyrirtækinu gætu skipt á milli sín innanlandsmarkaðnum, samnýtt landflutningakerfi fyrirtækjanna, og komið í veg fyrir samkeppni sín á milli, en um leið hvort ekki mætti beita Samtökum verslunar og þjónustu til að bregða fæti fyrir Íslandspóst, sem starfaði að hluta á sama markaði.

Eftir fundinn á Mokka áttu ýmsir millistjórnendur félaganna samskipti um viðfangsefnið í tölvupósti, til að fylgja þessum áformum eftir. Segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að sjá megi í tölvupósti sem Guðmundi barst frá svæðisstjóra innan félagsins þann 16. september 2008 að Samskip og Eimskip hafi náð saman „um ólögmæta skiptingu landflutningamarkaða eftir landsvæðum.“

Skiptu á milli sín akstursleiðum

Í tölvupósti viku fyrr sagði að Samskip hefðu óskað eftir „samvinnu í akstri milli Norður- og Austurlands, og í dreifingu innan Austurlands, frá EGS til SEY og frá RFJ til ESK/NES“. Niðurstaða fundarins hafi verið að tveimur starfsmönnum fyrirtækjanna hefði verið falið „að fara yfir stöðuna, og finna út hvar við getum unnið saman, báðum til hagsbóta. Fara yfir tímasetningu á akstri, magni og reyna að finna út eðlilega gjaldtöku.“

Það var viku síðar, 16. september 2008, sem svæðisstjórinn greindi Guðmundi frá því, með tölvupósti, að millistjórnendur beggja félaga væru „búnir að koma sér saman um að Eimskip sjá um akstur REF-ESK-NES og Samskip um SEY.“

Með orðum Samkeppniseftirlitsins: „Samskip myndu annast flutninga fyrir Eimskip milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða og þar með myndi Eimskip ekki stunda akstur á þessari leið í samkeppni við Samskip. Hið sama leiðir af samkomulaginu um flutninga Eimskips fyrir Samskip á flutningaleiðinni Reyðafjörður – Eskifjörður og Neskaupstaður.“

Fundurinn í Smáralind

Daginn sem Guðmundi barst orðsending um að samkomulag hefði náðst mælti hann sér aftur mót við Jörund. Það var um hádegibil næsta dags, miðvikudagsins 17. ágúst 2008, sem þeir hittust í verslunarmiðstöðinni Smáralind.

Í samantekt Samkeppniseftirlitsins segir að samningsdrög, tölvupóstar og önnur gögn sýni að eftir að niðurstaða náðist um markaðsskiptingu í landflutningum á Austurlandi hafi þeir Guðmundur og Jörundur, á fundinum í Smáralind, fjallað áfram um „aukið samstarf Eimskips og Samskipa í landflutningum“. Tölvupóstur sem Guðmundur sendi til undirmanna sinna næsta morgun, með heitinu „Landflutningar fyrir Samskip“, beri með sér undirbúning að verulega aukinni samvinnu fyrirtækjanna í landflutningum á Íslandi.

„Mikil tækifæri framundan í þessu“

Að sögn Samkeppniseftirlitsins var þaó þó ekki allt og sumt sem á milli framkvæmdastjóranna fór á fundinum í Smáralind. Þeir Guðmundur og Jörundur hafi ekki aðeins rætt um landflutninga heldur einnig um sjóflutninga „Samskipa fyrir Eimskip frá Reykjavík til Reyðarfjarðar og sjóflutninga Eimskips fyrir Samskip á sömu leið.“ Þeir hafi náð saman um verð fyrir þessa gagnkvæmu flutninga.

Allt hafi það verið í samræmi við markmið „Nýtt upphafs“ verkefnisins, sem æðstu stjórnendur fyrirtækjanna lögðu línurnar fyrir í upphafi þess sumars, „um aukið samstarf og samnýtingu á flutningakerfum fyrirtækjanna.“

Þá segir að Guðmundur Nikulásson hafi loks kynnt með glærusýningu, undir lok þessa september-mánaðar, framvindu hins ólögmæta samráðs á innanlandssviði. Þar hafi meðal annars eftirfarandi birst: „Samvinna með Samskip á ýmsum flutningaleiðum – tvíhliða samningar – mikil tækifæri framundan í þessu.“

Þannig segir Samkeppniseftirlitið að ætla megi að Eimskip hafi litið svo á að fundurinn í Smáralind hafi skilað tilætluðum árangri.

Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.

Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“

Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí