Ráðamenn þurfa að tryggja að fólk og fyrirtæki geti sótt fullar skaðabætur vegna samráðs

Réttarstaða þeirra sem verða fyrir tjóni af samkeppnislagabrotum er bagalega óskýr og tryggja þarf rétt fólks og fyrirtækja til að sækja skaðabætur vegna slíkra brota. Þetta segir í grein eftir lögmennina Eggert B. Ólafsson og Svein Andra Sveinsson, sem Innherji, viðskiptamiðill Vísis, birti í dag, mánudag.

Það er ekki nóg að ráðamenn fordæmi samkeppnislagabrot á við þau sem Eimskip hefur játað og Samskip hefur nú einnig verið sektað fyrir, segja lögmennirnir, heldur „þurfa þeir að sýna í verki að þeir taki hagsmuni neytenda og smærri fyrirtækja fram yfir hagsmuni stórfyrirtækjanna sem sífellt gerast brotleg við lög.“ Auðvelda þurfi fólki og fyrirtækjum að höfða skaðabótamál vegna slíkra brota. Það verði helst gert með því að „eyða óvissu um réttarstöðu tjónþola í samkeppnislagabrotum og innleiða evrópsku skaðabótatilskipunina“ – nánar um hana hér að neðan.

Tilskipun um skaðabótarétt hefur ekki verið innleidd

Í greininni telja lögfræðingarnir upp þau svið sem víðtækt, ólögmætt samráð fyrirtækjanna náði til: skipulag og gjöld sjóflutninga, landflutninga, upplýsingamiðlun um verð og svo framvegis. Þeir rekja hversu alvarleg og umfangsmikil brotin voru, samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, þegar félögin tvö voru með „um og yfir 90% hlutdeild í sjóflutningum milli íslands og Evrópu, 100% í sjóflutningum milli Íslands og Norður-Ameríku nær allt tímabilið og um og yfir 75-80% hlutdeild í landflutningum,“ ef miðað er við landið allt.

„Fyrirtæki og einstaklingar sem þurftu að kaupa þjónustu af samsærisfyrirtækjunum áttu því erfitt um vik,“ ítreka þeir, „var nánast ómögulegt að leita til annarra þegar þeim blöskraði verðhækkanir félaganna.“ Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sjálfs er enda rætt um það tjón sem samráðið hafði í för með sér fyrir „neytendur, fyrirtæki og þjóðarbúið í heild sinni.“

Samkeppniseftirlitið hefur lagt sektir á bæði fyrirtækin, Eimskip og Samskip. Eftirlitið úrskurðar hins vegar ekki um skaðabótaskyldu. Í íslenskum lögum eru ekki sérstök ákvæði um skaðabótaábyrgð þeirra sem brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga, að sögn lögmannanna heldur er þar vísað til almennra reglna skaðabótaréttar. Skaðabótamál vegna brota af þessu tagi eru hins vegar, segja þeir, „langt í frá auðsótt“.

Tilskipun um skaðabótarétt hefur ekki verið innleidd

Samkeppnislög á Íslandi eiga rætur sínar að rekja til EES-samningsins og þeirrar kröfu sem þar er gerð til stjórnvalda um eftirlit og aðrar aðgerðir til að tryggja virka samkeppni á mörkuðum. Lögin tóku gildi í febrúar árið 1993 en voru endurskoðuð í heild eftir aldamót. Núgildandi samkeppnislög tóku gildi árið 2005. Lögin í heild hafa ekki verið tekin til endurskoðunar eftir efnahagshrunið 2008.

Lögmennirnir vísa til Evróputilskipunar nr. 2014/104, sem þeir segja að nefnd sé skaðabótaréttartilskipunin á íslensku. Sú tilskipun hefur ekki verið formlega tekin upp í íslensk lög. Í henni er „mælt fyrir um reglur varðandi skaðabótamál fyrir dómstólum aðildarríkjanna vegna brota á samkeppnisreglum“ með það að markmiði að „tryggja fulla virkni innri markaðarins fyrir fyrirtæki og neytendur.“

4. kafli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fjallar um samkeppnisreglur. Hann liggur til grundvallar samkeppnislögum á Íslandi.

Lögmennirnir segja að í tilskipuninni sé aðildarríkjum meðal annars lagt á herðar að tryggja að „einstaklingar og lögaðilar sem hafi orðið fyrir tjóni vegna brota á samkeppnisreglum verði að geta fengið fullar bætur“ en með fullum bótum sé átt við „að tjónþoli verði settur eins og samkeppnislagabrotin hafi ekki átt sér stað. Bótarétturinn taki því bæði til beins tjóns og hagnaðarmissis, auk vaxta.“

Þá beri aðildarríkjunum að tryggja að landslög og reglur sem gilda í því samhengi séu ekki þannig úr garði gerðar eða þannig beitt að fólki sé erfitt að sækja rétt sinn til skaðabóta vegna brota á samkeppnisreglum. Sönnunarbyrði og sönnunarmat á umfangi tjóns eigi ekki að vera með þeim hætti að í framkvæmd verði óhóflega erfitt að sækja bæturnar.

„Það er ekki nóg,“ segir í niðurlagi greinarinnar, „að íslenskir ráðamenn fordæmi meint samkeppnislagabrot skipafélaganna, heldur þurfa þeir að sýna í verki að þeir taki hagsmuni neytanda og smærri fyrirtækja fram yfir hagsmuni stórfyrirtækjanna sem sífellt gerast brotleg við lög. Það verður helst gert með því eyða óvissu um réttarstöðu tjónþola í samkeppnislagabrotum og innleiða evrópsku skaðabótatilskipunina nr. 2014/104.“

Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.

Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“

Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí