Það var ekki svo að „Nýtt upphaf“, samráðið sem hófst milli Samskipa og Eimskips með smurbrauðsfundi æðstu stjórnenda fyrirtækjanna þann 6. júní 2008, hafi sprottið úr engu. Í nýbirtri samantekt Samkeppnisstofnunar kemur fram að ólöglegt samráð hafi verið með fyrirtækjunum fram að því. Í ljósi þess erfiða árferðis sem var framundan í efnahagsmálum og birtist loks í efnahagshruninu haustið 2008 hófu fyrirtækin hins vegar nánara og víðtækara ólöglegt samráð á þessum tímapunkti en fram að því.
Í samantekt Samkeppnisstofnunar er nefnt samráð í áætlunarsiglingum til og frá Evrópu frá árinu 2001, samráð frá 2004 um áætlunarsiglingar til og frá Norður-Ameríku, ólögmætt samráð í landflutningum frá 2005 og um skipaafgreiðslu á Reyðarfirði frá 2007. Þá komust hollensk samkeppnisyfirvöld að því að Eimskip og Samskip hefðu haft með sér ólögmætt samráð um rekstur frystigeymslu í einni mikilvægustu viðskiptahöfn Íslendinga í Rotterdam í Hollandi, frá 2006 til 2009.
Úrskurðir 1997 og 2003 gerðu ólögmæti samráðsins augljóst
Rannsókn Samkeppnisstofnunar snýr einkum að því ólögmæta samráði félaganna sem hófst sumarið 2008. Saga ólöglegs samráðs milli Eimskips og Samskipa nær hins vegar til síðustu aldar, eins og tíundað er í skýrslunni. Vegna fyrri afskipta samkeppnisyfirvalda af samráði skipafélaganna mátti stjórnendum Samskipa vera fullljóst „hvaða skorður ákvæði samkeppnislaga setja samvinnu fyrirtækisins við Eimskip,“ segir í samantektinni.
Samkeppnislög voru sett á Íslandi árið 1993, ekki síst til að innleiða kröfur EES-samningsins um eftirlit með samkeppni á markaði. Árið 1997 féll úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli Eimskipafélagsins gegn samkeppnisráði. Þar var staðfest að samvinna Samskipa og Eimskips í sjóflutningum milli Íslands og Norður-Ameríku hefði farið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Í samantekt Samkeppniseftirlitsins nú er vitnað í þennan úrskurð, þar sem lesa má: „Ótvírætt er að fákeppni ríkir um vöruflutninga sjóleiðis til og frá Íslandi á þeim siglingaleiðum sem um ræðir í máli þessu og að áfrýjandi hafi yfirburðastöðu á því sviði. Við þær aðstæður er hvers kyns samráð milli hlutaðeigandi flutningsaðila um náið samstarf við framkvæmd mikilvægra þátta í flutningastarfseminni, eins og við á í þessu máli, mjög varasamt í ljósi þeirrar meginreglu samkeppnislaga að efla beri virka samkeppni í viðskiptum.“
Þá er vitnað í ákvörðun samkeppnisráðs frá árinu 2003, þar sem aftur var fjallað um samstarf fyrirtækjanna í sjóflutningum og tekið fram: „Samskip og Eimskip eru keppinautar sem starfa á sama sölustigi. Öll samvinna af þessum toga er til þess fallin að draga úr samkeppni milli keppinauta. Allt samstarf milli keppinauta skapar hættu á að viðkomandi fyrirtæki fari að taka tillit hvort til annars og þar með dragi úr virkri samkeppni á viðkomandi markaði.“
„Eruð þið eitthvað klikkuð? Hver samþykkir 80% hækkun?“
Samráðið sem hófst sumarið 2008 og stóð til ársins 2013 hefur þó verulega sérstöðu í þessari sögu. Sú ákvörðun stjórnendanna um að fyrirtækin myndu ekki keppa um viðskiptavini heldur skipta þeim kurteislega á milli sín gerði báðum félögum kleift að hækka verð á þjónustu sinni án þess að viðbrögð viðskiptavina félaganna fengju hróflað við þeim. Í nóvember 2008 sendi Eimskip bréf til yfir 300 viðskiptavina, þar sem tilkynnt var um verðhækkanir. Í samantektinni Samkeppniseftirlitisins eru nefnd viðbrögð viðskiptavinar sem brást við með orðunum: „Eruð þið eitthvað klikkuð? Hver samþykkir 80% hækkun?“.
Samtímagögn, segir í samantektinni, staðfesta „fjölmargar kvartanir viðskiptavina fyrirtækjanna þar sem mótmælt er verðhækkunum, m.a. með vísan til verulegrar lækkunar á olíuverði og fordæmalausrar verðlækkunar á erlendum flutningamörkuðum.“ Sökum samráðsins, segir síðan, „þurftu Samskip og Eimskip aftur á móti ekki að óttast samkeppni frá hvort öðru og gátu leitt kvartanir og mótmæli hjá sér.“
Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum
Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.
Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.
Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“
Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“
Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.