Stjórnendur Samskipa og Eimskipa skemmtu sér yfir kvörtunum viðskiptavina og gervitilboðum sínum

Í samantekt Samkeppniseftirlitsins um ólöglegt samráð fyrirtækjanna Eimskip og Samskip á árunum 2008 til 2013 segir að samráðið hafi í heild sinni verið „til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verðum gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna, t.d. með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv. Sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna sköpuðu kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Um þetta er svo nefnt dæmi í skýrslunni: útboð Ölgerðarinnar á árinu 2009. Segir þar að fyrirtækið hafi verið einn mikilvægasti viðskiptavinur Eimskips. „Í upphafi árs 2009 var Ölgerðin afar ósátt við miklar verðhækkanir á sjóflutningsþjónustu Eimskips sem voru að auki í ósamræmi við samning fyrirtækjanna. Þá taldi Ölgerðin verð á landflutningaþjónustu Eimskips vera „fáránlegt“. Innan Eimskips var aftur á móti ekkert gert með þessar kvartanir Ölgerðarinnar enda þurfti Eimskip ekki að óttast samkeppni um viðskiptin vegna samráðsins við Samskip. Þess í stað sendu stjórnendur Eimskips kvartanir Ölgerðarinnar sín á milli til „skemmtunar“.“

Kepptu um að giska á tilboð „keppinautar“

Í ljósi hækkandi þess hve ósáttir stjórnendur Ölgerðarinnar voru orðnir við verðskrá Eimskipa ákvað Ölgerðin að bjóða út öll sín flutningsviðskipti. Og þá tóku stjórnendur Samskipa til við að skemmta sér. „Rétt fyrir opnun verðtilboða hjá Ölgerðinni háðu fimm af æðstu stjórnendum Samskipa „keppni“ sín á milli þar sem giskað var á tilboðsverð Eimskips í útboðinu. Ágiskanir allra stjórnendanna byggðust aftur á móti á því að Eimskip myndi bjóða lægra verð en Samskip í öllum þáttum útboðsins.“ Spennan hjá stjórnendum Samskipa lá með öðrum orðum í að komast að hver af þeim hefði giskað á rétt tilboðsverð Eimskips, en ekki hvort Samskip næðu viðskiptum við Ölgerðina, enda var ætlun stjórnendanna aldrei sú að bjóða betur en „keppinauturinn“.

„Gögnin sýna því,“ segir í samantektinni „að tilboð Samskipa til Ölgerðarinnar var sýndartilboð. Samráð Samskipa og Eimskips leiddi til þess að Eimskip hélt viðskiptunum og náði að hækka verð til þessa viðskiptavinar. Á fundi hjá Eimskipi var mikil ánægja með niðurstöðuna og brýndi framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu þetta fyrir undirmönnum sínum:

„Lagði línuna varðandi að við ættum ekki að lækka verðin. Þarf frekar að hífa upp verð […] Magn í skipum mætti vera meira þessa dagana“.

Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.

Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“

Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí