„Við viljum ekki hafa í hótunum en þó gera ljóst að við munum gera það sem við teljum rétt, eða þannig“

Áform Samskipa og Eimskips um aukið ólögmætt samráð var ýtt úr vör á smurbrauðsfundi æðstu stjórnenda félaganna snemma í júní 2008, með glærusýningunni „Nýtt upphaf“. Þar var áætluninni skipt í fimm liði: sameiginlegan rekstur skipaafgreiðslu, samningi um hagræðingar í siglingakerfi félaganna á Íslandi, samstarf í frystigeymslurekstri, samstarf í „short sea“ þjónustu, og samráð um innanlandsþjónustu.

Viðbrögð við öðrum keppinautum

Undir fjórða liðinn í þessari áætlun, „short sea“ þjónustu, féll útflutningur á frystum fiski frá Íslandi og Noregi. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um alvarleg brot Samskipa má lesa að frystur fiskur var fluttur frá Íslandi með frystigámum í áætlunarsiglingum Samskipa og Eimskips auk þess sem hann var fluttur í sérstökum frystiskipum. Samskip kom hluta þessa rekstrar fyrir í dótturfélaginu Silver Sea sem rak frystiskip til fiskútflutnings. Sama tilgangi þjónaði dótturfélag Eimskips, Eimskip-CTG. Þessi tvö dótturfélög áttu sér einn mikilvægan keppinaut, norska fyrirtækið Green Reefers.

Eins og þegar hefur komið fram í umfjöllun Samstöðvarinnar reyndu fyrirtækin að bregða fæti fyrir aðra keppinauta á markaði, um leið og þau auðvelduðu sér eigin rekstur með ólögmætu samráði. Þannig áttu framkvæmdastjórar innanlandsflutninga beggja félaga fund á kaffihúsinu Mokka, sumarið 2008, þar sem þeir ræddu meðal annars mögulegar leiðir til að trufla starfsemi Íslandspósts, þá með milligöngu Samtaka um verslun og þjónustu.

Sama átti við í fiskútflutningi. Um leið og fyrirtækinu veltu fyrir sér möguleikum á að sameina starfsemi dótturfélaganna Eimskip-CTG og Silversea, beindu félögin sjónum sínum að þessum þriðja aðila á markaðnum, Green Refers.

Ekki mætti þó stilla þessu upp sem hótun

Haustið 2008, þann 1. október, skrifaði framkvæmdastjóri Silver Sea, Tormod Foss­mark, tölvupóst til Ásbjörns Gíslasonar, forstjóra Samskipa, þar sem fram kemur að Samskip hafi óskað eftir samstarfi við Green Reefers en ekki borist svar frá keppniautnum. Hvatti Fossmark þá forstjórann, Ásbjörn, til að hringja í framkvæmdastjóra Green Reefers „og gera henni grein fyrir því að Samskip/Silver Sea hefðu dregið úr samkeppni gagnvart Green Reefers á meðan beðið væri svars, en það gæti breyst. Ekki mætti þó stilla þessu upp sem hótun,“ segir í endursögn Samkeppniseftirlitsins. Í tölvupóstinum mátti á frummálinu lesa: „We do not want to make any threat like comments, but at the same time ‘state’ that we will ‘do what we feel is right’ – kind of …“

Þrátt fyrir að Fossmark hafi sagt Ásbirni að ekki mætti stilla samskiptunum upp sem hótun „var þessi tillaga auðsýnilega hugsuð sem hótun eða a.m.k. hvatning til þess að stuðla að jákvæðu svari hið fyrsta frá Green Reefers,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Samskipti komust á milli fyrirtækjanna og eftir viðræður á árinu 2010 var samkeppni milli þeirra „lögð af með stofnun fyrirtækisins Silver Green sem tók yfir frystiskipaþjónustu Silver Sea og Green Reefers,“ að því er fram kemur í ákvörðuninni. „Í samtímagögnum stjórnenda Eimskips var með velþóknun rætt um að þessi aðgerð hefði dregið verulega úr samkeppni í útflutningi á frystum fiski frá Íslandi. Var það í samræmi við markmið „Nýtt upphaf“ verkefnisins.“

Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.

Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“

Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí