Ferð B2 sprengjuþotanna frá Íslandi var fyrsta lending þeirra á meginlandi Evrópu

Ef Íslendingar eru teknir að venjast því að sjá bandarískar sprengjuþotur af gerðinni B2 Spirit útundan sér, nú þegar þær hafa þrívegis komið í leiðangra til landsins, 2019, 2021 og nú síðast til mánaðardvalar sem lauk á dögunum, þá eru þær þó enn óvænt sjón í öðrum löndum Evrópu: þegar tvær vélanna flugu frá Keflavík til Noregs í þessum nýlokna leiðangri var það ekki aðeins í fyrsta sinn sem slík vél lenti í Noregi heldur í fyrsta sinn sem B2 sprengjuþota lenti á meginlandi Evrópu yfirleitt. Þetta kemur fram í umfjöllun um leiðangurinn á vefmiðli um flugmál, Aviation24. Dvöl vélanna hér markaði þannig ákveðin tímamót í yfirstandandi vígvæðingu í Evrópu.

Tilgangurinn samræming heraflans

Eftir mánaðardvöl á Íslandi eru B2 sprengjuþoturnar þrjár farnar af landinu í þetta sinn, eins og fram kom í liðinni viku. 150 „airmen“, það er liðsmenn flughersins, nánar til tekið 150 liðsmenn 393. sprengjuleiðangurssveitar flughersins, fylgdu þotunum til landsins. Eins og við er að búast fylgdi þeim líka nokkuð viðamikill orðaforði, sem hefð er fyrir að girða af og halda utan umfjöllunar á íslensku, en verður hér reynt að þýða eftir föngum.

Tilgangurinn með leiðangrinum var að samræma störf þeirrar sveitar við starfsemi breska og norska flughersins og „innlima“ þannig getu 393. sveitarinnar í sameiginlegan herafla NATO í Evrópu, til þátttöku í sprengjusveitarleiðöngrum (Bomber Task Force missions). Þetta kemur fram í samantekt um Íslandsleiðangurinn, sem birtist á kynningarvef Bandaríkjahers að honum loknum, síðastliðinn fimmtudag.

Þar segir að samstarf þessara sveita hafi ekki aðeins falið í sér „þróttmikla fullvissu um öryggi“ heldur einnig „kraftmikinn fælingarmátt gegn hugsanlegum árásaraðilum gegn bandalaginu“ og þannig væri „varnarregnhlífin yfir Evrópu“ útvíkkuð, henni varpað yfir allan hnöttinn.

Keflavík 28. ágúst 2023. Liðsmenn norska flughersins virðast ekki jafn fúsir að sýna á sér andlitin í myndatöku við ógnvaldinn og bandarískir kollegar þeirra. Ljósmynd: Robert Hicks, liðsmaður bandaríska flughersins. Á meginljósmynd með greininni má sjá liðsmann ljúka við að festa límmiða með merki 393. sprengjusveitarinnar á „tritonal“-sprengju áður en hún var færð um borð í eina vélanna í Keflavík.

Leiðangurinn til Íslands virðist hafa borið heitið „Bomber Task Force 23-4“ eða BTF23-4. Frá upphafi leiðangursins skráði sveitin 312 flugstundir. Sveitin lagaði starf sitt að störfum herliða í Alaska, samræmdi flug með F35 herþotum breska flughersins, slóst í för með bæði flugher og sérsveit frá Noregi, ásamt því að samræma störf sín íslensku Landhelgisgæslunni og flugher Portúgals. Þá lauk sveitin í þessum leiðangri fyrsta lágflugi sínu yfir Grænland og 17 stunda sleitulausu flugi í loftrými heimskautsins. Allt í allt, segir í samantekt hersins, tókst þannig að „tryggja öryggi“ 49 milljón ferkílómetra af landsvæði Evrópu.

Andrew Kousgaard, yfirmaður 393. sveitarinnar, sem ber á frummálinu titilinn „lieutenant colonel“, sagði íslensku gestgjafana hafa verið „phenomenal“ – sem virðist óhætt að þýða sem stórkostlega. „Við erum án alls vafa reiðubúnair sveit vegna tíma okkar á Íslandi,“ sagði hann.

Eina sveitin sem beitt hefur kjarnavopnum

Ekkert áþreifanlegt hefur komið fram sem gefur tilefni til að efast um þær fullyrðingar íslenskra stjórnvalda að vélarnar hafi verið án kjarnavopna í þessum leiðangri. Yfirlýstur tilgangur bæði vélanna og sveitarinnar sem starfrækir þær er hins vegar að þjóna sem ein þriggja stoða í kjarnorkuviðbúnaði Bandaríkjanna: slík vopn eru geymd á jörðu niðri, í kjarnorkukafbátum, og um borð í tveimur gerðum sprengjuþota. B2 vélarnar eru önnur gerðin. Um tuttugu slíkar þotur eru í notkun.

Sveitin sjálf, 393. sprengjuleiðangurssveitin, var stofnuð snemma árið 1944 í einum tilgangi, sem hún þjónaði upp úr miðju ári 1945, þegar hún varpaði fyrstu og einu kjarnorkusprengjum sem beitt hefur verið til hernaðar hingað til, yfir borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Þá tók sveitin þátt í kjarnorkutilraunum Bandaríkjanna á Kyrrahafi. Allar götur síðan hefur sveitin verið máttarstólpi í kjarnorkuviðbúnaði Bandaríkjanna. Hún var raunar lögð tímabundið niður þegar kalda stríðinu lauk, árið 1990, en hóf aftur störf árið 1993, sem fyrsta flugsveit Bandaríkjanna með nýju Íslandsvinina, hinar þá glænýju B2 sprengjuþotur.

Einkennismerki (patch) sveitarinnar sem hér hafði viðdvöl hyllir uppruna, sögu og hlutverk hennar.

Í umfjöllun um mánaðarlanga leiðangurinn til Íslands sem lauk á dögunum vísar herinn sjálfur og þeir fjölmiðlar sem búa að sérþekkingu á störfum hersins til nýrrar áætlunar innan flughersins sem ber heitið „ACE“ eða Agile Combat Employment. Þessi áætlun eða þetta líkan – doctrine er enska heitið – snýst um að draga úr berskjöldun flughersins með því að gera starfsemi hans hreyfanlegri, staðsetja bækistöðvar víðar en áður og komast á milli þeirra hraðar en áður. Þannig væri andstæðingi gert erfiðara fyrir að velja sér skotmark. Ferðirnar til Íslands eru liður í framkvæmd þessarar áætlunar. Samkvæmt henni eiga allar þessar bækistöðvar að vera tilbúnar að verjast öllum gerðum hernaðar, þar með talið kjarnorkuógn.

Engin kjarnavopn í Keflavík í dag

Með öðrum orðum bendir margt til þess að sú uppbygging á aðstöðu sem farið hefur fram á undanliðnum árum og aukin viðvera flughersins í Keflavík sem hefur fylgt í kjölfarið, sé til þess ætluð, meðal annars, að gera flughernum kleift að ferðast með kjarnavopn um íslenska lofthelgi og jafnvel staðsetja þau, að minnsta kosti tímabundið, um borð í vélum með viðkomu eða dvöl á landinu. Að sá möguleiki sé til staðar, hvort og hvenær sem hann er nýttur, er samkvæmt öllum heimildum lykilþáttur í þeim fælingarmætti sem talað er um í samhengi við þessa uppbyggingu.

Þó að íslensk stjórnvöld virðist líta svo á sem staðsetning kjarnorkuvopna á landinu væru ekki líkleg til vinsælda, og hagi máli sínu eftir því gagnvart almenningi þegar viðfangsefnið ber á góma, þá er þessi þróun þó í samræmi við skrásetta stefnu stjórnvalda í reynd, þann hluta hennar sem síður er haldið á lofti. Þannig má vissulega, í þjóðaröryggisstefnu landsins, finna ákvæði um að „Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum“ en setningunni lýkur ekki þar heldur fylgir fyrirvari: „að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga“. Meðal alþjóðlegra skuldbindinga landsins eru vitaskuld aðildarsamningurinn að NATO, en eins og lesa má á vefsíðu bandalagsins sjálfs eru „kjarnorkuvopn lykilþáttur í heildargetu NATO til fælingar og varna … svo lengi sem kjarnorkuvopn eru til verður það kjarnorkubandalag.“

Bandaríkjaher gefur ekki upp staðsetningu kjarnorkuvopna sinna, af strategískum ástæðum. Íslensk stjórnvöld segja að þarlend yfirvöld sýni því skilning að hér séu slík vopn ekki vinsæl. Á sama tíma virðist búið í haginn fyrir það, af þónokkrum krafti, að hægt verði að beita slíkum vopnum, þó ekki væri nema til ógnar og fælingar, á Íslandi og frá Íslandi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí